mánudagur, janúar 08, 2007

Prentvillupúkinn gengur berserksgang

Og fyrst ég er farin að tína til gamla pistla á annað borð þá kemur hér enn einn:

Ég er ein af þeim sem láta sér annt um íslenskt mál og leiðist því skelfilega að heyra því misþyrmt með málvillum og ambögum. Af sama toga er spunnin ást mín á bókum og ég hef alltaf borið mikla virðingu fyrir hinu ritaða orði. Þess vegna verð ég óskaplega örg þegar mér berast í hendur blöð, tímarit eða bækur þar sem hver prentvillan rekur aðra í kraðaki afbakaðra setninga lélegrar málvitundar.

Í þýðingum reynir ekki hvað síst heilbrigða skynsemi og góða tilfinningu fyrir máli. En þegar villur af þessu tagi verða fyndnar er hugsanlega hægt að fyrirgefa þær. Dæmi um slíkt var í Frank og Jóa bók sem ég las mér til gamans í æsku. Þar var sagt frá því að eftir dansleikinn hefðu Frank og Jói, bróðir, hans brugðið sér í gönguferð á ströndinni með döðlunum sínum. Mér þótti með ólíkindum að jafnheilbrigðir piltar og Frank og Jói töltu um strendur, götur eða fjöll með döðlur sér við hlið svo ég fór að leita mér upplýsinga um hvað gæti verið hér á ferðinni. Eldri systir mín grét af hlátri þegar henni var sýnd bókin því hún benti mér á að sennilega væri enska setningin eitthvað á þá leið að Frank og Jói hefðu farið með „their dates for a walk on the beach" en það er nefnilega allt önnur ella því þá er um að ræða stúlkurnar sem þeir áttu stefnumót við um kvöldið frekar en hinn gómsæta ávöxt döðlur, forboðnar eður ei.

Í kvikmyndinni Ship of Fools kemur einn farþeganna inn í skipstjóraklefann til Omars Sharif sem lék þann sem þar réði ríkjum og kvartaði hástöfum yfir framkomu skipverja við sig. Omar gengur að vínskáp hellir sér í glas og snýr sér að farþeganum óánægða og segir: „Would you like to join me?“ Þetta var þýtt: „Viltu vera mér samferða.“ En Omar var auðvitað að bjóða farþeganum hjartastyrkjandi drykk sér til samlætis. Annað frægt dæmi þegar einhver snillingur á fréttastofu Stöðvar 2 flutti frétt af opinberri heimsókn Vigdísar Finnbogadóttur til Danmerkur. Vigdísi var boðið að taka þátt í krydsild með Margréti danadrottningu. En krydsild þýðir í skoðanaskipti eða rökræður. Fréttamaðurinn var ekki betur að sér en svo að hann sagði að Vigdísi hefði verið boðið í kryddsíld ásamt Danadrottningu.

Prentuvillupúkinn er ærsladraugur
Ekki er síðra þegar neyðarlegar prentvillur setja ofurlítið annan svip á efnið en til var ætlast. Þannig gleyma víst fáir kirtli krists sem var efni fyrirsagnar í Tímanum en orðið var haft með einföldu í stað ypsilons svo tilefni varð til langra vangaveltna meðal gárunganna yfir hver innkirtla Krists hefði þarna verið til umræðu. Sumir veðjuðu á nýrun, aðrir brisið og sumir vildu færa sig neðar. Sennilega jafngott að þeim umræðum var ekki vísað til rannsóknar saksóknara líkt og páskaþætti þeirra Spaugstofumanna forðum.

Prentuvillupúkinn svokallaði var óvenjurætinn í dáraskap sínum í millitexta úr þöglu myndinni Gullæðið eftir Chaplin sem var á þá leið að ákveðinn bær væri einn dæmigerðra gullgrafarabæja sem sprottið hefðu upp eins og gorkúlur, nema kúlur varð að kúkur.

Prentvillupúkinn getur farið slíkum hamförum að telja verði hann til ættkvíslar svokallaðra ærsladrauga en það gerðist einmitt í gömlu myndinni Snake Pit eða Snákagryfjan. Þar leikur Olivia de Havilland unga geðbilaða konu sem lokuð er inni á geðsjúkrahúsi við heldur ömurlegar aðstæður. Ein hjúkrunarkonan er eitt sinn að ræða ástand hennar sem verið hafði óvenjuslæmt í það sinn og segir: „Þetta hafa verið algjör randvæði hún er búin að vera garsneggjuð í allt kvöld.“

Eins verð ég alltaf ofurlítið örg þegar frægum persónum er ruglað saman líkt og gerðist í ævisögu Marilynar Monroe Gyðjan sem ég las um daginn. Í heildina er bókin óvenjuilla unnin, morandi í mál- og prentvillum, full af málfarsvillum og ótal setningar lúta enskri orðaröð fremur en íslenskri. Steininn tekur þó úr þegar það er fullyrt að Rainer fursti af Mónakó hafi hætt við að giftast Marilyn og ákveðið að giftast Gene Kelly í staðinn. Hvort furstinn hefur heillast svona af dansi hans og söng í myndinni Singin' in the Rain skal ósagt látið og engum getum að því leitt hvort Gene hefur hryggbrotið hann og það þá orðið til að hann ákvað að giftast Grace Kelly sem í það minnsta bar sama ættarnafn.

Þótt skemmtilegar villur af þessu tagi auðgi mannlífið má samt spyrja hvort þeir þýðendur sem slík mistök gera telji okkar skemmtun þess virði að reisa slík minnismerki um hroðvirkni sína.

Lögmál Murphy's í kynlífi

Lögmál Murphy's gengur út á það að ef eitthvað geti farið úrskeiðis þá muni það gerast. Þetta hefur verið túlkað á ýmsa vegu og slegið fram fullyrðingum á borð við þessar: Hafðu ekki áhyggjur af deginum í dag, morgundagurinn verður enn verri. Þetta

Edward A. Murphy jr. sá sem lögmálið er kennt við var einn af tæknifræðingum bandaríska flughersins og vann meðal annars við tilraunir sem gerðar voru á vegum hersins við að setja menn í svokallaða „eldflaugasleða“ sem ætlaðir voru til að prófa þol mannsins gegn hröðun (eins og á sér stað þegar eldflaug klifrar hratt upp í loftið). Við eina þessara tilrauna kom það fyrir að 16 hröðunarmælar sem límdir voru á líkama þess manns sem verið var að prófa, var öllum snúið öfugt þrátt fyrir að á öðrum enda þeirra væri vandlega merkt: Þessi hlið upp. Murphy setti þá fram svohljóðandi lögmál:

„Ef það eru tvær eða fleiri aðferðir til að gera eitthvað og ein þessara leiða getur leitt til ófarnaðar þá mun einhver velja þá leið. “

Það liðu ekki margir mánuðir frá því að Murpy sagði þessi fleygu orð þangað til þetta var komið til allra deilda hersins. Þar aðlagaði hver og einn lögmálið að sínum þörfum og hið sama gerðist þegar það barst út um heimsbyggðina og sennilega er í dag til útgáfa af lögmáli Murphy's fyrir flesta þætti daglega lífsins. Hér á eftir kemur lögmál Murphy's um samskipti kynjanna og kynlíf.

Ekkert batnar með árunum.
Kynlíf eyðir aðeins örfáum kaloríum.
Kynlíf er alls ekki tímafrekt en veldur alls konar vandamálum.
Það er engin lækning við girnd önnur en kynlíf og meira kynlíf.
„Sex appíll" er 50% það sem þú hefur og 50% það sem aðrir halda að þú hafir.
Sofðu aldrei hjá sínum hvorum manninum á sömu skrifstofunni.
Kynlíf er eins og snjórinn; þú veist aldrei hve djúpur hann verður né hversu langt verður þangað til hann bráðnar.
Einn maður heima fyrir er meira virði en tveir úti á götu.
Ef þú hefur „hreðjatak“ á karlmönnum þá fylgir hjarta þeirra í kaupunum.
Það er til lækning við meydómi.
Þegar eiginkona lærir að skilja mann sinn, hættir hún að hlusta á hann.
Sofðu aldrei hjá neinum sem er geggjaðri en þú.
Þeir eðliseiginleikar sem draga konuna að manninum í upphafi eru oftast þeir sem hún hatar mest nokkrum árum seinna.
Kynlíf er sóðalegt, aðeins ef það er gert á réttan hátt.
Besta leiðin til að halda konu er að hafa hana í örmum þínum.
Kynhvöt er arfgeng. Ef foreldrar þínir hafa verið lausir við hana hefðir þú sjálfsagt aldrei fæðst.
Ástarleikjum hefur aldrei verið aflýst vegna; veðurs, myrkurs eða þoku.
Það var alls ekki eplið á trénu sem orsakaði öll vandræðin í Edensgarði heldur parið sem lá á jörðinni.
Það er ýmislegt sem er betra en kynlíf og margt verra en ekkert sem er alveg eins.
Elskaðu náunga þinn en passaðu þig að ekki komist upp um þig.
Ef geimferðaáætlun Bandaríkjanna hefði notið jafnmikillar athygli og karlmenn veita konubrjóstum væri nú hægt að fá sér pylsu á Bæjarins bestu á tunglinu.
Ástin er efnafræði, kynlífið eðlisfræði.
Gerðu það aðeins með þeim bestu.
Einn góður snúningur skilar þér allri sænginni.
Þú getur ekki eignast barn á einum mánuði þótt þú gerir níu konur óléttar.
Reyndu að standast vín, söng og karlmenn. Þó aðallega söng.
Kynlíf er aðeins ein af níu ástæðum fyrir endurholdgun, hinar átta skipta engu máli.
Brostu og fólk mun velta því fyrir sér um hvað þú sért að hugsa.
Ástin er þess háttar tálsýn að manni finnist einn maður öðruvísi en allir hinir.

Bölsýnismenn og bjartsýnisfólk

Pabbi minn hefði orðið 86 ára þann 5. janúar ef hann hefði lifað. Þennan pistil flutti ég í Samfélaginu í nærmynd fyrir ansi mörgum árum. Það var ekki síst faðir minn sem ég hafði í huga þegar ég skrifaði þetta.

Viðhorf fólks til lífsins ráða oft mestu um viðbrögð þess við aðstæðum. Flest þekkjum við einhverja fyrirhyggjumenn sem virðast vel undir allar ágjafir búnir og ávallt hafa nokkuð góða hugmynd í upphafi um lyktir hvers máls. Sjálf er ég svo bjartsýn að jaðrar við heimsku og trúi stöðugt að eitthvað muni mér nú leggjast til áður en allt verði í óefni komið. Sjaldnast hafa nú stórkostleg höpp orðið mér til bjargar, frekar að svona hversdagslegt juð hafi að lokum skilað sér, en ekkert virðist það þó slá á bjartsýnina eða kenna mér ögn meiri fyrirhyggju. Enn fleygi ég mér út í hringiðuna án þess að velta mikið fyrir mér hvar ferðin muni enda, rétt eins og gamla konan sem ævinlega túlkaði drauma sína á þann veg að nú ætti einhver hennar nánustu von á happdrættisvinningi. Þegar það brást var ekkert verið að sýta það heldur beðið eftir næsta drætti því fyrst það brást í fyrsta sinn var það gulltryggt í annarri tilraun og svo auðvitað ekki allt var fyrr en þrennt var orðið og fullreynt í fjórða. Hún tók það svo sem ekkert nærri sér þótt biðin eftir þeim stóra lengdist stöðugt eftir því sem á ævina leið því hún naut þó alltaf ánægjunnar af tilhlökkuninni.

Margir hafa viljað skipta mönnum í tvo hópa eftir því hvort hægt er að kalla þá hálftómt-menn eða hálffullt-menn. Skiptingin byggir á gömlu sögunni um drykkjumennina sem horfðu á sama glasið og annar taldi glasið hálftómt en hinn sagði það hálffullt. Þeir sem almennt líta björtum augum á lífið og virðast trúa statt og stöðugt að hvernig sem allt velti muni þeir koma niður á fæturna eru þessir hálffullt-menn en hinir sem gegn svo mörgu sem guð þeim sendir gera kvíðann að hlíf eru hálftómt-menn.

Sumum finnst einhver vörn í að búast alltaf við hinu versta því þá komi svo þægilega á óvart ef hlutirnir einhvern tíma ganga vel. Þeim þykir jafnvel fró í að spá hinum verstu óförum í byrjun hverrar atburðarásar. Ég kannast vel við einn slíkan bölsýnismann og þegar fréttir bárust af því á dögunum að spámaður nokkur hefði séð fyrir endurfæðingu Krists í Þrándheimi á tilteknum degi og tilteknum tíma fylgdumst við í fjölskyldunni spennt með hvort af þessum merkisatburði yrði. Bölsýnismaðurinn tók lítinn þátt í vangaveltum hinna en þegar lát varð á skvaldri okkar kvað hann skyndilega upp úr eins manns hljóði: „Þið þurfið nú ekki að velta endukomu Krists mikið fyrir ykkur, fæðist hann í Þrándheimi verða þeir búnir að krossfesta hann áður en hann kemst til Óslóar.“

Ratar aldrei um borð í flugvélina
Þessi sami maður fylgdi eitt sinn barnabarni sínu í flug til Danmerkur. Eftir forspár um týndan flugmiða, glataðan farangur, gleymt vegabréf og önnur óhöpp sem hent gætu áður en um borð í vélina væri komið virtist allt ætla að ganga stórslysalaust og hann horfði á eftir drengnum upp rúllustigann í flugstöð Leifs Eiríkssonar tuldrandi: „Tjah! Hann skilar sér ábyggilega aldrei um borð í vélina.“

Í dag er okkur sagt að viðhorf okkar til lífsins skipti miklu um hvort menn nái markmiðum sínum eða líði almennt vel. Bölsýni og svartagallsraus ættu samkvæmt því aðeins að skila mönnum óhamingju en þeir bölsýnismenn sem ég þekki virðast oftast ákaflega ánægðir í sinni svartsýni og hreinlega oft hafa gaman af því að setja saman alverstu óhapparöð sem hægt er að ímynda sér. Þeir eru þó alls ekki ánægðir þegar hrakspár þeirra rætast heldur almennt jafn miður sín og aðrir.

Já, sennilega er í þessu sem öðru vandratað meðalhófið og áreiðanlega best að vera fyrirhyggjumaður sem stígur varlega til jarðar en lætur ekki kvíða eða hrakspár aftra sér frá því að reyna sig við hlutina.

Að þekkja sinn vitjunartíma

Sumir þekkja ekki sinn vitjunartíma. Þetta varð mér ljóst í gær þegar við Gummi mættum stórum hóp af göngufólki á rölti okkar með hundinn. Freyju fannst auðvitað stórkostlegt að sjá allt þetta fólk og þegar einn karlinn kom alveg að henni flaðraði hún upp um hann. Karlinn brást hinn versti við, æddi að okkur Gumma og hvæsti: „Hundurinn hoppaði upp á mig. Sástu það ekki?“ Gummi leit á hann pollrólegur og spurði: „Viltu sparka í hann til baka?“ „Ha! Nei,“ svaraði karlinn snúðugur og móðgaður yfir því að við skyldum ekki taka þessu nægilega alvarlega. „Þú verður að passa hundinn,“ bætti hann við. „Ég er nú reyndar að reyna það,“ sagði Gummi „En kannski þú munir það næst þegar þú mætir hundi að ganga ekki alveg að honum.“ Karlinn var öskureiður og fannst við greinilega ekki axla nægilega ábyrgð á dýrinu okkar. Ég var hins vegar mest hissa á því að hann skyldi ekki gleðjast yfir vinalátum hundsins. Svona skapvonskupúkar eru áreiðanlega ekki vinsælir og að mínu mati er það til marks um umburðarlyndi og mannelsku dýrsins að það skuli geta hugsað sér að vera vinalegt við hann. En sumir þekkja ekki sinn vitjunartíma eins og Bíblían segir okkur.