Sögur af mér og sögur af þér
Ég fór í æfingaferð um Reykjavík í morgun á vegum skólans. Að þessu sinni talaði ég síðust af öllum. Ég varð ekki orðlaus ólíkt því sem gerðist á Reykjanesinu en fékk orð í eyra á eftir fyrir að hafa sagt sögur af afa og pabba. Mér var bent á að betra hefði verið að benda fólki á Verslunarskólann, Háskólann í Reykjavík og Borgarleikhúsið. Persónulega fannst mér sagan af afa eiga mjög vel við. Ég benti fólki á að götunar í nýrri hlutum borgarinnar væru breiðari en göturnar niðri í bæ, enda hefðu þær verið hannaðar fyrir hesta en ekki bíla. Síðan sagði ég fólki að afi hefði fram í andlátið átt hesta í bakgarðinum en hann hefði dáið 1974. Dag nokkurn hefði hann verið á ferð um miðborg Reykjavíkur ásamt félaga sínum og tvöföldu dyrnar á Hótel Borg stóðu þá opnar. Félaginn sagði við afa: Ég þori að veðja að það er hægt að ríða inn um þessar dyr þær eru svo breiðar. Ég tek því veðmáli svaraði afi um hæl og reið síðan viðstöðulaust inn um dyrnar og alla leið inn í Speglasal. Hótelstjórinn var ekki hrifinn og afi var í banni á Hótel Borg í nokkra mánuði á eftir. Sagan af pabba fjallaði um hversu lítið hann þurfti að borga fyrir fiskinn sem hann keypti fyrir mömmu sína beint af sjómönnunum niðri á höfn. Ég benti á að í dag myndi sambærilega máltíð kosta margfalt meira. Vissulega fóru Borgarleikhúsið og Kringlan í súginn meðan þessar sögur voru sagðar en mér fannst það ekki stórmál.