mánudagur, október 25, 2004

Konurnar í lífi mínu

Þetta erindi flutti ég í ræðumaraþoni Kvenréttindafélagsins um helgina:

Konur eru konum verstar. Það er gjarnan gripið til þessa orðatiltækis þegar útskýra þarf hvers vegna konur festast í hlekkjum tísku og útlitsdýrkunnar eða ef menn vilja skýra hversu treglega þeim gengur að ná launajafnrétti og klífa metorðastigann. Orðatiltækið er sömuleiðis vinsælt þegar einstaklingur af kvenkyni gerir eitthvað á hlut annars einstaklings af sama kyni. Þetta hefur alltaf farið óskaplega í taugarnar á mér einkum vegna þess að konurnar í lífi mínu hafa reynst mér einstaklega vel og ég á þeim allt að þakka.

Í lífi hvers barns er mamma mikilvægasta persónan og þannig var það í mínu tilfelli. Mamma var mér óskaplega góð og kenndi mér ótalmargt. Ég er henni þó þakklátust fyrir að hafa innrætt mér mikla ást á orðum og hversu snilldarlega er hægt að flétta þau saman. Aðferð mömmu við að slaka á og láta líða úr sér eftir erfiðar vinnutarnir var nefnilega að lesa ljóð. Ein af fyrstu minningum mínum um mömmu er þegar ég laumaðist undir borðstofuborðið heima til að geta hlustað á hana lesa upphátt fyrir sjálfa sig. Ég sat með öndina í hálsinum og þorði ekki að gefa frá mér minnsta hljóð. Að mínu mati var þetta helg stund. Rödd mömmu breyttist þegar hún las og þótt ég skildi ekki orðin sagði hljómfallið mér að öll voru þau orð töfrum slungin.

Ég tel að undir borðstofuborðinu heima hafi vaknað áhugi minn á bókmenntum sem aldrei síðan hefur slokknað og kannski var þetta kveikjan að því að ég ákvað að starfa við skriftir og hef alltaf haft unun af því að leika mér með orð.

Alla mína barnæsku gekk Magga systir næst mömmu. Til að byrja með var hún líkt og litla systir mín þótt hún væri tveimur árum eldri. Magga var nefnilega óframfærin og hlédræg en það væri synd að segja að ég hafi nokkurn tíma þjáðst af feimni. Ég var því leiðtoginn sem dró hana á asnaeyrunum í ýmsar ófærur. Fljótlega fór Magga þó að sporna við fótum, enda frá upphafi skynsamari og gætnari en ég. Af henni lærði ég að hemja fljótfærnina og Magga er mér ekki bara góð systir heldur líka einstök vinkona.

Á námskeiði um daginn var ég spurð að því hvaða manneskju í lífi mínu ég vildi síst vera án og ég svaraði án umhugsunar eða hiks: Möggu systur. Og segir ekki sálfræðin að fyrsta svarið sem kemur upp í huga manns sé það marktækasta.

Ömmur mínar voru báðar látnar þegar ég fæddist en ég var svo heppin að eignast staðgengla. Önnur var stjúpmóðir mömmu minnar og hjá henni dvaldi ég iðulega á sumrin þegar ég var barn. Hún kenndi mér að þekkja og meta íslenskan gróður og hjá henni var ævinlega gott að vera. Hin amma mín var vinkona mömmu. Upphaflega var okkur kennt að kalla hana ömmu af stríðni og strákskap í mömmu en þessi kona tók hlutverkið alvarlega og reyndist okkur alla tíð sem besta amma. Hún var hreinskiptin, fróð og skynsöm. Hún þekkti fátæktina af eigin raun og þótt hún hefði það nokkuð gott síðari hluta ævinnar gleymdi hún aldrei að velmegun og efnislegur auður eru fallvölt gæði. Hún mat mannkosti ofar titlum og kenndi mér að taka ekki ofan fyrir kóngi eða presti ef þeir höfðu ekki áunnið sér slíkan virðingarvott.

Þegar ég var fimmtán ára kynntist ég Höllu. Við urðum vinkonur undir eins og þótt ég hafi átt vinkonur áður var það ekki fyrr en ég kynntist henni að ég lærði að vinátta snerist um heilindi, umburðarlyndi og skilyrðislausan stuðning. Halla er besta og trygglyndasta manneskja sem hægt er að hugsa sér og af henni lærði ég svo margt að varla entist mér sólarhringurinn til að telja það allt upp. Við þroskuðumst saman og okkar binda traust bönd. Á vináttu okkar hefur aldrei borið skugga í þrjátíu ár. Í hvert skipti sem eitthvað bjátar á í lífi mínu eða ég þarfnast ráðlegginga þá tek ég upp símann og hringi í Höllu og Möggu. Það bregst ekki að eftir þau símtöl líður mér betur og ég veit hvað gera skal.

Í gegnum Höllu kynntist ég ömmu hennar. Stórkostlegri konu sem geislaði á jákvæðni og lífsgleði. Hún elskaði mann sinn ákaflega heitt og lét ekki smáatriði eins og það að hann af og til gleymdi að láta vita þegar hann tafðist í vinnunni fella skugga á samlífið. Hann var sólin í lífi hennar og enginn maður betri. En reyndar átti hún ákaflega auðvelt með að sjá það góða í öllu fólki og gerði sér aldrei mannamun. Hún tilheyrði þeim hópi sem gjarnan er kallaður „fína fólkið“ en það var ekki á henni að finna að það skipti hana neinu. Hún var jafnkurteis, ljúf og góð við alla. Með framkomu sinni kenndi hún mér að aðalsmerki hverrar manneskju er að una glaður við sitt, öfunda engann og njóta þess sem lífið færir án beiskju eða iðrunar.

Amma hennar Höllu sagði skemmtilegar sögur af mönnum og málefnum og hikaði ekki við að segja skoðun sína á hverju máli. Hún var mjög pólitísk og fylgin sannfæringu sinni. Þrátt fyrir þetta lét hún þá staðreynd að aðrir voru ósammála aldrei hafa áhrif á framkomu sína gagnvart því fólki né heldur mat hún það minna. Þó gat það komið fyrir að hún dæsti: „Skelfingar synd er að hann Nonni skuli vera kommi. Þessi ágæti maður.“ Að hennar mati var Nonni villuráfandi að þessu leyti en aðeins tímaspursmál hvenær hann áttaði sig. Þetta er nú umburðarlyndi ef umburðarlyndi er til.

Hún hafði líka sínar sérstöku aðferðir til að gera lífið auðveldara meðal annars söng hún kvæðið um Siggu Geira í hvert skipti sem hún gekk eitthvert. Ef hún var spurð hvort leiðin hafi verið löng svaraði hún að bragði: „Nei, alls ekki. Þetta voru ekki nema þrjár Siggur Geira.“

Hún hafði einnig þann háttinn á að leyfa sér að hlakka til alls sem hugsanlega, kannski gæti mögulega gerst og þegar ekkert varð úr dró lítið úr gleðinni. „Ég fékk þó að minnsta kosti ánægjuna af að hlakka til,“ sagði hún og brosti alsæl. Af þessari konu lærði ég gildi jákvæðs hugarfars og hversu auðveldlega maður getur stjórnað því hvort skapið er gott eða slæmt. Ég lærði það líka að smávægileg vonbrigði eru ekki upphaf og endir alls og enginn skyldi vanmeta ánægjuna sem dagdraumar geta veitt.

Meðal annars fyrir tilstilli hennar fékk ég vinnu í Búnaðarbankanum ung að árum. Þar kynntist ég Kollu vinkonu minni. Konan sú var seinheppin svo af bar og skemmti samstarfsfélögum sínum stöðugt með sögum af óhöppum þeim sem eltu hana. Kannski lýsir það best þeim ósköpum sem yfir hana dundu að hún er eina manneskjan sem vitað er að hafi leitað aðhlynningar á slysadeild með skurðsár á hæl eftir að hafa skorið sér jólakökusneið.

Hún var einnig með þeim ósköpum gerð að öll tæki sem hún hafði afskipti af eða komst í nágrenni við biluðu. Af viðskiptum hennar við reiknivélar, myndavélar og tölvur bankans eru til ótal góðar sögur. Þessi undarlegi eiginleiki var henni þó ekki til skaða, að mati hennar sjálfrar, nema þegar hún ung kona gekk rúntinn í Austurstræti og vonaðist til að vera boðið upp í bíl hjá strákunum. Þá brást ekki að bílarnir sem hún var farþegi í biluðu og þegar hjólið datt undan einum þeirra var Kollu ekki framar boðið að setjast upp í kagga. Við komumst í sameiningu að þeirri niðurstöðu að Kolla myndi hafa fæðst á vitlausri öld. Hún væri nítjándu aldar manneskja sem slysast hefði inn á þá tuttugustu fyrir bilun í tölvukerfi himnaföðurins.

Að mörgu leyti hafði líf hennar verið erfitt en vegna þess að hún sá alltaf skoplegu hliðarnar á hverju máli urðu byrðarnar auðveldari. Kolla kenndi mér að leita beinlínis að því hlægilega í hverri raun og gera mér mat úr því. Ég bý að þessu enn og í hvert skipti bílinn minn bilar eða einhver slys henda mig í amstri dagsins verður mér hugsað til Kollu og í huganum sem ég gamansögu um atvikið og umsvifalaust verður allt einfaldara og þægilegra.

Ýmsar fleiri góðar konur hef ég þekkt. Ég á vinkonur, frænkur og systur auk frábærrar dóttur sem kennir mér eitthvað nýtt á hverjum degi. Vissulega hafa karlmenn komið við sögu í lífi mínu og marga þeirra met ég mikils. Ég er ákaflega vel gift og á yndislegan son. Báðir hafa þeir kennt mér margt og verið mér ákaflega dýrmætir. Það breytir ekki því að allar þessar yndislegu konur sem hafa auðgað líf mitt með tilvist sinni og mótað mig hver á sinn hátt eru mun fleiri og áhrif þeirra því sterkari. Ég held að þótt vissulega bregðist konur öðrum konum þá sé það svo langtum meira sem þær gefa af sér. Þegar allt kemur til alls held ég að stundum séu karlmenn konum verstir, stundum konur konum verstar og iðulega karlmenn körlum verstir. Enginn kemst í gegnum þetta líf án þess að særa einhvern tíma annan. Stundum særum við óafvitandi og stundum viljandi. Þetta gerir okkur ekki að vondum konum eða illkvittnum körlum heldur einfaldlega breiskum manneskjum.