þriðjudagur, september 05, 2006

Allt fyrir hunda og hundaeigendur

Við Freyja erum nýkomnar úr tveggja tíma gönguferð meðfram ströndinni við Fossvog. Veðrið var indælt og við mæðgur vorum í banastuði. Okkur þyrsti á göngunni og svo skemmtilega vildi til að þarna var vatnshani með tveimur bunum. Önnur í fínni hæð fyrir mig að drekka af og hin var akkúrat í hæð Freyju. Við fengum okkur því drykk saman ég og tíkin.

Sérstætt sparnaðaráð

Undanfarin ár hef ég keypt talsvert af fatnaði á Netinu. Netverslun Long Tall Sally er sérsniðin að þörfum kvenna sem hafa lengri útlimi en gengur og gerist og það hentar mér því einstaklega vel. Eftir að nýja Apple-tölvan kom á heimilið bregður hins vegar svo við að ég get ekki greitt vörurnar til að fá þær sendar hingað heim. Ég kemst svo langt að velja föt í shopping bag en síðan situr allt fast. Ég hef grun um að Guðmundur hafi komist í tölvuna eða þá að hún af einhverjum ástæðum hefur skipað sér í lið með honum ákveðin í að draga úr útgjöldum heimilisins.

Ljúfar stundir í himnaríki en löng er leiðin heim

Við Svava skutumst upp á Akranes á föstudaginn og dvöldum í góðu yfirlæti í himnaríki hjá Gurrí. Hún reyndist hinn besti leiðsögumaður um allt það markverðasta á Skaganum og okkur hlotnaðist sá heiður að heimsækja Einarsbúð. Þessi einstaka hverfisbúð lætur lítið yfir sér utanfrá séð en þegar inn er komið reynist vítt til veggja og vöruúrval gott. Þarna fæst allt frá júgursmyrslum til sælkerafæðis og meira að segja sokkar sem ganga lengra. Við Svava skemmtum okkur konunglega við að ganga um og skoða dýrðina meðan Gurrí keypti frábæran fiskrétt sem hún fóðraði okkur systur á síðar um kvöldið. Á leiðinni heim fórum við varlega vel minnugar þess að ekki alls fyrir löngu keyrðum við framhjá afleggjaranum til Reykjavíkur og lentum heima á hlaði á bóndabæ nokkrum. Kusuhópurinn var að koma heim til kvöldmjalta og þær störðu opinmynntar og hálslangar á þessar stórskrýtnu konur og veltu fyrir sér hvort eitthvað svona furðulegt gæti verið ætt. Þetta ævintýri varð til þess að við Svava fylgjumst með veginum þegar við ökum heim frá himnaríki.