föstudagur, febrúar 04, 2005

Southern Comfort fylleríið fræga

Svava og Gurrí voru að biðja um Southern Comfort söguna og hér kemur hún. Þetta var á sokkabandsárum okkar Margrétar systur minnar. Við vorum að stíga fyrstu skrefin í áfengisnotkun og það kom fyrir að við áttuðum okkur ekki alveg á hver munurinn væri á sterkum vínum og gosdrykkjum. Laugardagskvöld nokkurt höfðum við keypt flösku af Southern Comfort, sem við höfðum heyrt að væri eðaldrykkur, ásamt Höllu vinkonu og Svölu. Við sátum heima hjá Kristjáni, bróður Svölu, og konu hans Sveinu og drukkum. Fljótlega varð Margréti ljóst að systir hennar þambaði þennan sæta drykk líkt og Bergþór þurs í Bláfelli slokraði í sig sýruna forðum. Hún reyndi því að vara hana við og fá hana til að hægja ögn á teygunum. Allt kom fyrir ekki því yngri systir hennar kvaðst hafa fullkomna stjórn á þessum drykkjunni og alveg vita hvað hún væri að gera. Brátt stóðum við upp til að fara á ball og Steingerður greip flöskuna og hugðist hafa slurkinn sem eftir var í sinni umsjón. Vel rúm botnfylli var eftir í flöskunni og Magga bauðst því til að taka hana. Þú getur misst þetta, sagði hún við systur sína. Ekki aldeilis, var svarið og síðan æddi ég af stað niður stigann. Ég var varla búin að stíga nema í efstu tröppuna þegar ég missti flöskuna sem umsvifalaust fór í þúsund mola og sætt vínið dreyfðist um gólfdúkinn í stiganum. Passaðu þig, sagði Magga við systur sína. Þú getur runnið og dottið. Fíflið lét það sem vind um eyru þjóta og stökk eins og hind niður stigann. Þar sem ég stóð á dyrapallinum heyrði ég skyndilega hrrrmp, rimppp, rrrrimmp, rimpp fyrir aftan mig og þegar ég leit við sá ég systur mína renna tröppu af tröppu þar til hún hlunkaðist á pallinn og stöðvaðist þar. Margréti hafði sem sagt ekki tekist að vara sig á þeirri keldu sem hún hafði þó varað systur sína við og runnið í sætu sullinu. Ég hneig niður af hlátri og hunskaðist út í keng af kátínu yfir óförum systur minnar en henni var ekki skemmt. Það var Höllu og Svölu ekki heldur en þær reyndu að þrífa upp viðbjóðinn þar til Sveina gafst upp og rak þær út, enda engin okkar í hreingerningarástandi. Sveina var heldur ekkert of hrifin af okkur og ef ég man rétt var ég komin snemma heim þetta kvöld og sofnuð áfengissvefni í rúminu mínu. Ég get því með sanni sagt að óhófleg notkun á Southern Comfort er hvorki til að efla dansmennt manna né til þess fallin að auka þeim vinsældir hjá þeim sem þrífa hús. Já, ég má sannarlega hugsa með ákveðinni hreykni til Southern Comfort kvöldsins fræga.

Skemmtileg sumarbústaðaferð

Ég var að koma heim úr sumarbústaðnum og tel að þetta hljóti að flokkast með styttri slíkum ferðum því hún varði í nákvæmlega fimm og hálfa klukkustund. Ástæðan fyrir þessari fljótaskrift var sú að þegar komið var að afleggjaranum upp að bústað Blaðamannafélagsins reyndist hann ótrúlega sundurgrafinn og illfær. Ég bað Guðmund að leggja ekki í afleggjarann og kvaðst ætla að labba upp að bústaðnum og kanna aðstæður. Hann hélt nú Santa Fe hefði sig yfir smáræði eins og fáeina skipaskurði og gryfjur á stærð við Miklagljúfur. Ég hleypti tíkinni samt sem áður út og ákvað að ganga af stað. Ég var komin nær upp að bústaðnum þegar ég uppgötvaði að ekkert bólaði á Guðmundi á sínum fjallabíl. Ég sneri því við og kom að honum þar sem hann sat fastur tveimur og hálfum metra frá beygjunni inn á afleggjarann og minn var kolfastur. Eftir klukkutíma puð með skóflu, plönkum og handafli okkar hjóna gáfumst við upp og hringdum eftir hjálp. Hálftíma síðar kom vingjarnlegur bóndi á sönnum fjallatrukk og dró okkur hjónin upp á veg. Tíkin skemmti sér konunglega í snjónum á meðan og gerði meira að segja tilraun til að bera plankana að bílnum. Ég býst við að þar með hafi vinnuhundurinn komið upp í henni. Við lögðum sem sé af stað úr bænum klukkan tólf og klukkan hálf sex renndum við Santa Fe inn í heimkeyrsluna heima. Þetta er næstum alveg jafnskemmtileg ferð og bíltúrinn með Möggu gömlu frænku til sællar minningar. Þá stóð til að renna með gömlu konuna austur á Þingvelli en bíllinn hans pabba bilaði við bílskúrana í Bólstaðarhlíð. Fyrir þá sem ekki þekkja til er þessi vegalengd um 300 m. Ég gekk aftur heim í kotið þeirra pabba og mömmu við hlið Möggu frænku. Gamla konan sneri sér að mér á leiðinni og sagði brosmild: Þetta var reglulega skemmtileg ferð. Stutt en skemmtileg.