Máltæki, svell og svakalegheit
Bandaríkjamenn fundu upp hið hentuga orðtæki; Long time no see. Ég verð að bæta um betur og segja dagafjöld, engin skrif. En þegar maður er í tveimur prófum, einni fundarstjórn á ráðstefnu, einni flensudruslu og á kafi í vinnunni þá gerir maður eiginlega ekki mikið annað. Að minnsta kosti ekki ég, enda er ég engin ofurkona fremur svona ofurhálfviti. Sérhver sem eitthvað vissi í sinn haus myndi ekki ofhlaða sig svona verkefnum en nú er þessari viku frá víti lokið og ég komin í gamla gírinn. Við Freyja runnum um Kópavogsdalinn í morgun, glæsilegar á velli þegar lappirnar runnu hver í sína áttina og handleggirnir slógust eins og mylluspaðar út í loftið í þeirri viðleitni að halda jafnvægi. (Þetta á auðvitað eingöngu við um mína handleggi. Freyja lét sér nægja að sletta skottinu og sannaðist þá hið fornkveðna að slettir hver sem hann betur getur.) Eva Halldóra kom frá Rússkí Pússkí heilu og höldnu á laugardagskvöldið og gladdi mömmu sína með gjöfum. Ég fékk glæsilega rafeyrnalokka sem ég hef ekki tekið úr mér síðan hún kom og fallegt box í dósa- og boxsafnið. Já, nú fer að komast jafnvægi á og allt að verða eins og það á að vera. Á morgun mun meira verða skrifað ef ég slepp við beinbrot í morgungöngunni.