Draumabrúðkaup
Draumfarir mínar eiga það til að vera skrautlegar eins og lesendur hafa kannski merkt af draumum þeim sem mig dreymdi meðan pabbi lá á spítalanum. Í nótt dreymdi mig hins vegar að ég sæti brúðkaup vinkonu minnar. Allt var þar með hefðbundnum hætti nema upp kom að pels sem átti vantaði. Ég hafði fengið hann lánaðann og skilið hann eftir í íbúð fyrrum sambýlismanns hennar. Pelsinn fannst en í kjölfarið brá ég mér í brúðkaup þessa fyrrum sambýlismanns hennar og þar var allt með öðrum brag. Kirkjan var risastór og presturinn og allir brúðkaupsgestir (að mér undantekinni) klæddust norskum þjóðbúningum. Við og við brustu hinir og þessir hópir í söng sem var eitthvert sambland af jóðli og þjóðlegri tónlist. Nokkrir þjóðbúningaklæddir gestir röðuðu sér í hring og dönsuðu vikvaka. Milli kirkjubekkjanna gengu menn og buðu upp á rauðvínstoddí með rjóma og stúlkur með vatnsdeigsbollur á bakka sáu til þess að gestir fengju einnig fasta fæðu. Þetta var ákaflega líflegt brúðkaup og ég er ekki frá því að ég stefni að því að fá Guðmund til að endurnýja hjúskaparheitin með mér á þessu ári og halda svona magnað gilli í kirkjunni. Ykkur er öllum boðið ef af verður.