miðvikudagur, október 20, 2004

Karlar eru frá Plútó, konur frá Júpiter

Mikið lifandis skelfingar ósköp leiðist mér allt þetta kjaftæði um einfalt tilfinningalíf karla og flókið tilfinningalíf kvenna. Sjálfri hefur mér alltaf fundist konur einfaldar og auðskiljanlegar verur meðan ekki er nokkur leið að botna í hugarflækjum karlmanna. Segið mér t.d. hvernig er hægt að ganga út af heimili sínu að morgni, sitja í vinnunni allan daginn og leiða ekki í eitt einasta skipti hugann að því hvað sé nú best að hafa í kvöldmatinn eða hvort krakkinn muni komast lifandi heim úr skólanum. Þetta var kannski ekki gott dæmi því karlmenn hugsa ekki um slíkt fyrst og fremst vegna þess að einhver kona tekur ábyrgð á svona hlutum fyrir þá. Betra dæmi er mismunandi viðhorf til veikinda. Konur álíta heimurinn haldi áfram að rúlla þótt þær séu veikar og ef þær kjósa að nærast meðan á veikindunum stendur þá sæki þær sér mat sjálfar. Karlmenn telja hins vegar að heimurinn stöðvist á þeim tímapunkti sem þeim verður illt og einhver eigi að koma með mat, vökva, verkjartöflur og aukakodda handa þeim. Já, karlmenn eru flókið víravirki og augljóslega frá fjarlægari plánetu en Mars.