föstudagur, júní 03, 2005

Gullinn leitari

Kannski að menn vilji fá að heyra aðeins meira af þessu persónuleikaprófi sem ég tók. Það heitir sem sagt The Ultimate Personality Test og er inni á ticle-inc.com. Niðurstaðan sem ég fékk var sú að ég væri Golden Seeker en sú persónugerð væri einstaklega gefandi, opinská og glaðlynd en að auki leitandi og sífellt tilbúin til að þroska sjálfan sig og eins þeir orðuðu það þarna úti: „A joy to be around.“ Já, mikið óstjórnlega geta þessi persónuleikapróf verið nákvæm og akkúrat í því að skynja persónuna sem svarar. Ég vildi hins vegar óska að Golden Seeker minnti mig ekki svona hryllilega mikið á litlu gullnu kúluna sem Harry Potter eltir uppi á Quidditch-vellinum.

Heimspeki á unga aldri

Hér sit ég og hangi eins og sígarettubuxnavasahengilmæna fyrir framan tölvuna og reyni að finna mér eitthvað til að gera. Ég hef lokið þeim verkefnum sem ég hafði á minni könnu þessa viku og bíð eftir að klukkan verði þrjú. Til að eyða tímanum er ég búin að leika mér endalaust í kapli á Netinu, taka persónuleikapróf sem sagði mér að ég væri einstök og lesa alls konar rugl og þvætting á cosmopolitan.com. Þetta horfir til vandræða. Tíminn líður svo hryllilega hægt. Einhvern tíma þegar ég var barn var ég stödd úti á strætóstoppistöð með Obbu, þáverandi bestu vinkonu minni. Einhver gömul kona beið þarna líka og eftir stutta stund sagði hún við okkur: „Mikið er nú klukkutíminn lengi að líða þegar maður bíður eftir honum.“ Obbu fannst þetta óstjórnlega fyndið en ég skildi alveg hvað gamla konan átti við. Auðvitað er tíminn einga stund að líða þegar manni er sama hvert hann fer. Þessi kerling var hinn mesti viskubrunnur því stuttu síðar benti hún mér á krónu á götunni. Ég beygði mig niður og tók hana upp en Obbu fannst það versta firra og gargaði: „Ekki gera það! Ekki taka þetta upp!“ Þá sagði sú gamla: „Sá sem aldrei hirðir smátt á alltaf fátt.“ Já, maður hefur sko hitt heimspekinga um ævina.

Ég er vanræktur vesalingur

Nýlega gerði Kiddi tölvumaðurinn okkar eitthvert trix við serverinn þannig að minni sía er á skilaboðum sem berast í tölvupósti. (Þeir sem ekki skilja þessa setningu eru ekki heimskir. Ég skil hana ekki heldur.) Hvað sem öðru líður varð þetta til þess að á hverjum morgni bíða mín á milli tuttugu og þrjátíu skilaboð í tölvunni. Fyrst eftir að breytingin var gerð gladdi þetta mig ósegjanlega og ég fylltist hundakæti í hvert sinn sem ég sá allan póstinn. Gvööð hvað ég er vinsæl. Flaug gegnum huga minn og ég blóðhlakkaði til að opna öll þessi bréf frá vinum og ættingjum. Vonbrigðin urðu alltaf jafnmikil þegar mér varð ljóst að þetta voru bara þessi venjulegu tilboð um róandi töflur, viagra og typpastækkunartæki. Ég er auðvitað löngu búin að kaupa þvílíkan lager af slíkum varninga að það væri að bera í bakkafullan lækinn að bæta við. Ég vildi hins vegar að mínir nánustu stæðu sig betur í að senda mér bréf. Það er helst Gurrí mín sem lætur vita af sér af og til og gleður mitt gráa hjarta.