Against stupidity even the Gods contend in vain
Þetta sagði Fredrich Schiller einhverju sinni og Andri sonur minn var svo vænn að skjóta þessu að mér um helgina. Hingað til hef ég frekar notað tilvitnun í George Bernard Shaw en hann sagði: 98% mannkyns eru fávitar og við hin í stöðugri smithættu. Ég held að þessir tveir andans menn hafi báðir sannarlega haft ýmislegt til síns máls. Svona til að rökstyðja það ögn ætla ég að segja ykkur söguna af því þegar við Gummi vorum á göngu með tíkina fyrir nokkrum mánuðum og mættum sérfræðingi i mannasiðum. Freyja var tíu mánaða þegar þetta gerðist, hálfgerður hvolpur og alls ekki fullþjálfuð. Við mættum fjölskyldu á göngunni og eitt barnið var á hlaupahjóli. Freyju fannst að sjálfsögðu eitthvað æsandi við að sjá manneskju á hjólum svo hún teygði sig í áttina að barninu til að þefa. Ég rykkti í ólina og þá gelti hún hálfpirruð yfir að fá ekki að kanna þetta fyrirbæri nánar. Fjölskyldufaðirinn leit þá á hundinn með skinhelgissvip og sagði: „Þú ert illa upp alin. “ „Sömuleiðis,“ svaraði ég að bragði. „Svona eiga hundar ekki að hegða sér,“ sagði snillingurinn þá. Nú býst ég ekki við að þessi vitsmunavera, þótt maður viti aldrei, hafi haldið að tíkin myndin taka svo til sín ákúrur hans að hún tæki sig verulega á í hundasiðum þannig að ég býst við að raunverulega hafi athugasemd hans verið ætluð mér eða okkur hjónunum. Ég var hins vegar alin upp við það að það væri argasti dónaskapur að beina orðum sínum til þriðja aðila þegar skilaboðin væru raunverulega ætluð öðrum. Ég hef líka alltaf talið að maður dæmdi ekki án þess að hafa til þess allar forsendur. Þarna var nefnilega um fullkomlega eðlilega hegðun að ræða hjá hvolpi og tíkin hefði hreinlega verið óeðlilegt dýr ef hún hefði ekki sýnt áhuga á nýju fyrirbæri. Að mínu mati eru því áhöld um hvort var verr að sér í góðum siðum tíkin eða karlinn knái.