mánudagur, mars 21, 2005

Snáfaðu heim Snati!

Við mæðgur brugðum okkur í Smáralindina þegar ég var búin að vinna. Dóttir mín þurfti að fá gloss, brúnkukrem, púður og hlýraboli. Ég ætlaði hins vegar ekkert að versla en þegar ég rakst á gula önd sem gargar í Tiger gat ég ekki stillt mig um að kaupa hana handa Freyju. Eva tók pokann og fór á undan mér út. Hún var ósköp aumleg þegar ég kom út í bíl og skýringin kom um leið og ég settist. Jú, hún hafði gengið bísperrt út um dyrnar þar sem nokkrar konur sátu og reyktu. Hún var rétt komin að hópnum þegar öndin góða hóf upp raust sína og gargaði hástöfum í pokanum. Konurnar ráku upp stór augu og hugsanlega hafa þær haldið að krakkinn hafi einhvers staðar stolið lifandi önd í páskamatinn. Stelpan eldroðnaði og hálfhljóp að bílnum. En hafi hún vonast eftir samúð frá móður sinni var það borin von. Hún hafði varla lokið sögunni þegar ég sagði: Hvers vegna í ósköpunum hristir þú ekki pokann og sagðir: Þegiðu Snati og snáfaðu heim.

Um viðhöld og önnur áhöld

Ég var að horfa á Opruh fjalla um makaskipti um helgina. Mér skildist á öllu að þetta sport væri stundað af miklum móð í flestum úthverfum Bandaríkjanna. Í þættinum kom sömuleiðis fram að framhjáhald kvenna færðist mjög í aukana og kannski var það ímyndun mín en mér fannst að svo rammt kvæði að þessu að varla nokkur kona væri undanþegin því að hafa látið augun renna í átt að öðrum en makanum undanfarin ár. Ekki nema von að annað hvert hjónaband í Bandaríkjunum endi með skilnaði. Annars ferst mér að tala um framhjáhald og ætti umsvifalaust að þurrka helgislepjuglottið af vörunum. Guðmundur kallar nefnilega krossgátu Tímarit Morgunblaðsins viðhaldið mitt og mér skilst að hann þjáist af athyglisskorti hvert einasta laugardagskvöld. Maðurinn minn er svo frjálslyndur að hann líður það orðalaust að konan hans kúri sig upp í sófa með viðhaldið í tvær til fjórar klukkustundir á hverju laugardagskvöldi. (Þarna sjáið þið. Krossgátan endist lengur en nokkur meðalkarlmaður.) Hugsanlega má kalla þetta einhvers konar makaskipti og þó því Guðmundur fær ekkert í sinn hlut nema ef vera kynni frið fyrir konunni sinni. Nei, það er ekki rétt með reglulegu millibili lítur hún nefnilega upp og segir: „Hvað dettur þér í hug þegar ég segi: Það er gott að finna öfugan bókstaf?“ Einmitt það sem ástsjúkir eiginmenn þurfa á að halda á laugardagskvöldum.