miðvikudagur, desember 14, 2005

Hvenær má gleðjast og hvenær ekki?

Persónulega er ég á móti fegurðarsamkeppnum og tel það fáránlegt að keppa í fegurð. Mér finnst eiginlega jafnfáránlegt að keppa í því að sparka í bolta, slá kúlu á golfvelli og í því hver er vöðvastæltastur. Þrátt fyrir þetta er mér fyrirmunað að skilja hvers vegna skeyti forsætisráðherra fór svona fyrir á brjóstið á femínistum. Þótt fótboltinn sé að mínu mati með því heimskulegasta sem mannskepnan hefur fundið upp sér til dundurs myndi ég ekki móðgast þótt Halldór ræfillinn sendi Eiði Smára skeyti með hamingjuóskum íslensku þjóðarinnar þegar honum gengur vel. Eins finnst mér kroppasýningar vaxtarræktarmanna lítið tiltrekkjandi en sjálfsagt að gleðjast með einhverju íslensku blöðrudýri ef það kemst á verðlaunapall. Vissulega eru fegurðarsamkeppnir niðurlægjandi fyrir þá sem taka þátt en það eru kroppasýningar líka. Velji fólk þessa leið og líði vel með það er samt engan veginn hægt að segja því fyrir verkum eða troða upp á það skoðunum sem það kærir sig ekki um. Að mínu mati er því tímaskekkja að mótmæla og rífast yfir fegurðarsamkeppnum. Mörg verðugri málefni eru til sem þarfnast meiri athygli.