fimmtudagur, janúar 25, 2007

Loftur hinn ljúfi

Við hjónin mættum í hesthúsin eldsnemma í morgun og gáfum níu hestum hey. Okkur var vel fagnað þegar við komum en meðan við brösuðum við að kveikja ljós í hlöðunni og ýmislegt fleira sem ekki var alveg á hreinu urðu ýmsir órólegir og voru teknir að kumra og stappa með framfótunum. En að lokum gekk þetta og þegar tuggan var komin í jöturnar kyrrðist mjög í húsinu og ekkert heyrðist nema tannagnístur þegar hrossin voru að tyggja. Freyja var skíthrædd við þessar stóru skepnur sem hún hefur sjaldan séð í návígi áður en vildi fylgja húsbændum sínum dyggilega. Hún skaust því eldsnöggt fram og aftur eftir ganginum með skottið milli fótanna. Eftir því sem á leið óx henni ásmegin og undir það síðasta var mín farin að ganga bísperrt um hesthúsgólfið. Loftur reyndist hinn ljúfasti hestur og tók mér af mikilli þolinmæði þegar ég kíkti á veika fótinn. Það er ótrúlegt hvað hann hefur náð sér en hann lenti í rimlahliði og allt skinn og kjöt flettist af öðrum framfætinum svo sást inn í bein. Dýralæknirinn græddi gervihúð eða eitthvað slíkt ofan á fótinn og sárið hefst mjög vel við. Allar líkur eru á að Loftur muni ná sér að fullu. Hann er ákaflega duglegur þegar dýralæknirinn skoðar hann og bíður þolinmóður eftir að fá nammi að skoðun lokinni. Gummi fer með hann í skoðun klukkan þrjú í dag en Freyja fær sennilega ekki að koma með í það ævintýri.

Og að lokum ég hef rekist á nokkra fleiri pistla við tiltekt í tölvunni en ætla að hvíla ykkur á langlokufærslum í smátíma.