Og víst er tilveran alvarleg
Við systur fórum með mömmu okkar austur í Sólheima í Grímsnesi í dag. Gamla konan átti afmæli um daginn og þetta var það sem hún óskaði sér að gjöf, að safna um sig dætrum sínum og heimsækja nokkra þroskahefta einstaklinga í sjálfsþurftarbúskap uppi í sveit. Hver hefur sinn smekk eins og þar stendur. En dagurinn var bráðskemmtilegur. Sérstaklega var mér skemmtun að því þegar einn íbúanna á Sólheimum kom til mín til að fá að skoða Freyju. Við höfðum talað saman litla stund þegar skyndilega birtist þarna kona fyrrum vinnuveitanda Gumma. Hún heilsaði mér með því að spyrja hvort ég væri nú búsett þarna. Ég svaraði auðvitað að ég væri nú ekki búin að fá inni en væri búin að sækja um. Ertu búin að sækja um? sagði þroskahefta konan glöð. Það tók okkur umtalsverðan tíma að útskýra fyrir henni að þetta hafi bara verið spaug.