fimmtudagur, ágúst 25, 2005

Pödduhausinn er kominn!

Addmon paddus er kominn heim! Jibbí! Ég hefði aldrei trúað því að tíu dagar væru nóg til að maður færi að sakna fjölskyldumeðlima en það er sannarlega satt. Ég var farin að sakna þess að geta ekki hringt í Andra og Gunni og það var bókstaflega hræðilegt að geta ekki sent þeim látlaus SMS. Verst var vikan þegar Eva var úti í Kaupmannahöfn, Gummi nýfarin og Addi farinn líka. Ég var alveg hræðilega ein í heiminum að eigin mati þessa daga. Þegar Eva kom aftur lagaðist það mikið. Þá hafði ég alla vega einn vesaling til að níðast á, enda hefur greyið fengið tvöfaldan skammt af vitleysislegum SMS þessa dagana. Ég hugsa að hún sé dauðfegin líka að losna við eitthvað af öllu þessu.

Upp, upp mín sál í morgungleði

Sú var tíð að það versta sem ég gat hugsað mér var að vakna snemma á morgnana. Í þá daga hefði ég selt sál mína fyrir tíu mínútur í viðbót á koddanum. Mætingapunktarnir sem ég fékk í MH segja sína sögu um þetta tímabil og sömuleiðis sú staðreynd að ég skrifaði oft um það í dagbókina mína að ég vildi verða næturvörður þegar ég yrði stór. Eftir að ég fékk tíkina Freyju hef ég hins vegar rifið mig upp eldsnemma á morgnana og farið út að ganga með blessað dýrið. Meðan hún var hvolpur varð ég að vakna klukkan sex til að hún gæti pissað síðan færðist það fram til hálf-sjö en núorðið vakna ég sjö. Það hefur komið mér mjög á óvart hversu fagur heimurinn er að morgunlagi. Morgunhaninn eiginmaður minn hafði að vísu orðað þetta nokkrum sinnum við mig en ég var fullviss um að hann væri að ljúga til að blekkja mig upp úr rúminu fyrir hádegi. Það er fátt fallegra en litríkur morgunhimininn og Kópavogurinn er stundum spegilsléttur og glampandi en þess á milli úfinn og grár eða hvítfryssandi og illskulegur. Öll þessi fjölbreytni er dásamleg og sumt jafnfjölbreytilegt í eftirmiðdaginn sem á morgnana en annað er eitthvað svo ferskt og nýtt að morgni að ekkert jafnast á við það t.d. hreint og kristaltært loftið eða syngjandi, glaðir smáfuglar. Jamm gott fólk það er ekki jafnslæmt og af er látið að vakna á morgnana og hver veit nema maður fari að rífa sig upp klukkan fimm til að gera Mueller's-æfingar í fjörunni.

Eg vildi ég væri hænuhanagrey

Nú eru úrslit orðin ljós úr leiðtoga- og klassíksrakvikmyndaprófinu. Svava var Raiders of a lost Ark og JFK. Ég vildi miklu frekar vera Harrison Ford en einhver hallærislegur Mr. Smith sem reynir alltaf að gera rétt. Svava var JFK vegna þess að hún sækist eftir völdum til að geta nýtt sér þau til kynferðislegrar svölunar. Það finnst mér ef satt skal segja meira spennandi en að vera Abraham Lincoln sem var ljótur og þar að auki skotinn í leikhúsi. Gurrí var Easy Rider sem segir auðvitað rosalega margt um hana og sá leiðtogi sem hún líktist mest var móðir Teresa. Ég veit reyndar ekki hvort er verra að vera móðir Teresa að Abe Lincoln. Kannski ætti ég bara að vera þakklát fyrir að vera ekki Idi Amin og Gone with the Wind og halda svo kj.