Ég gæti vanist dekrinu
Elín ritstjóri bauð okkur í mat í gær og úr varð hreint ótrúleg veisla. Við mættum klukkan þrjú og þá biðu ostar, brauð, ávextir og nammi eins og hver gat í sig látið. Seinna var grillað og sest inn við borðstofuborð hlaðið veisluföngum. Hún bauð upp á kjúklingabringur maríneraðar í óskaplega góðum legi, ótrúlega góða sveppasósu og bakaðar kartöfluskífur með hvítlauk. Þar að auki var ríkulega útilátið hrásalat og köld sósa á borðum. Ég tróð mig svo út að lengi vel hélt ég að þetta yrði mitt síðasta en þegar rommkúluísinn var borinn inn hlaðinn berjum fann ég að lengi má teygja sitt magamál. En þetta var yndislegur dagur og frábært kvöld. Ég vinn með svo skemmtilegu og góðu fólki að leitun er að öðru eins. Þegar ég fór heim um ellefuleytið var ég því södd, sæl og þreytt.