Konur af öllum stærðum og gerðum
Í nýjasta tölublaði Nýs lífs er viðtal við Björn Jörund Friðbjörnsson. Á forsíðunni yfir kynningu á viðtalinu við hann stendur Kona ársins. Þar fyrir neðan kemur svo Björn Jörundur pabbi og piparsveinn. Ég hef löngum hreykt mér af því að geta verið bæði bíll og bílstjóri en held svei mér þá að Björn Jörundur slái mig alveg út. Sá sem er bæði pabbi og piparsveinn (og nota bene fráskilinn piparsveinn. Einu sinni voru þeir einir piparsveinar sem aldrei höfðu kvænst) og þar að auki kona ársins. Jamm það verður ekki á suma logið, fjölhæfni þeirra er með hreinum afbrigðum.