sunnudagur, maí 29, 2005

Lært af reynslunni

Ég læri aldrei af reynslunni. Allt frá því ég var smábarn hef ég reynt að föndra og vinna í höndunum eins og vinkonur mínar en á meðan þær framleiða hvert snilldarverkið á fætur öðru skila ég af mér óskapnaði sem enginn skilur hvernig varð til. Þetta verður best skýrt með vísunni gömlu:

Skrattinn fór að skapa mann
skinnlaus köttur varð úr því.
Hann andanum kom ekki í hann.
Hann átti að heita Þórarinn.

En aftur að sögunni sem ég ætlaði að segja. Ég keypti mér nefnilega brúnkuklúta í gær. Einhver laug því að mér að þeir væru svo auðveldir í notkun að engin hætta væri á að lenda í sömu súpunni og ég hef svo oft lent í með brúnkukrem. Ég lét blekkjast og í dag lít ég sem sagt út eins og rauðskinni með hræðilegan húðsjúkdóm. Ég læri aldrei af reynslunni.