föstudagur, maí 12, 2006

Sonur minn mandólínunnandinn

Að undanförnu hefur sonur minn verið að mestu laus við SMS-skilaboð frá móður sinni. En ég heyrði í honum áðan og ákvað að líta við á leið heim úr vinnu. Ég bauðst til að leika á mandólín fyrir utan til að láta hann vita að ég væri komin en drengurinn frábauð sér að fá að njóta tónlistarhæfileika móður sinnar. Af því tilefni sendi ég honum þessa limru í SMS:

Ég vil á mandólín leika
þá þarf ég ekkert að feika
mitt rómantíska æði
og get í næði
málað sjálfa mig bleika.

Eins og gamall blöðruselur

Ég kláraði síðasta prófið í Leiðsöguskólanum í gær. Ég hélt að ég myndi tryllast úr feginleik og gleði þegar ég gengi út en þess í stað var ég eins og sprungin blaðra. Ég staulaðist heim og skreið upp í sófa og zonkaði mig út fyrir framan sjónvarpið í smástund. Þegar Bones var búin skreið ég inn í rúm og hraut eins og naut til klukkan sex í morgun. Þá vaknaði ég við heimskautaloftslag og eftir að hafa talið í mig kjark í tíu mínútur gekk ég niður til að athuga hverju sætti. Útdyrahurðin reyndist þá opin upp á gátt. Þegar ég sá það rifjaðist upp fyrir mér að ég hafði hleypt tíkinni út í port áður en ég fór að sofa og þannig fór nú það. Sennilega verð ég að teljast stálheppin að hafa ekki vaknað upp með gest á rúmstokknum eins og þær Gurrí og Beta Englandsdrottning þurftu að þola. Bíðið samt aðeins við. Hefði gesturinn verið Jason Stratham eða Clive Owen kann vel að vera að blátt, frosið nef hafi verið þess virði.