Hvað segirðu? Alltaf í boltanum?
Magga og Helen litu við hjá mér í gær og við settumst út í garð. Aron Örn var með ömmu sinni og tók til við að skemmta Freyju með boltakasti. Hann kastaði boltanum óvart út úr garðinum og hún elti. Við systur hentumst á eftir tíkinni öskrandi og gargandi skíthræddar um að hún lenti fyrir bíl. Hún bjargaðist hins vegar blessunarlega og stökk inn í garðinn með boltann. Þá tók fíflið, ég, boltann af tíkinni og kastaði honum að sjálfsögðu umsvifalaust út á götuna aftur. Tíkin tók svo á rás út á götuna á eftir honum en til allrar lukku slapp þetta aftur. Ég er nú alveg sérstakur snillingur að þessu leyti og þetta atvik varð Helen auðvitað tilefni til að rifja upp þegar ég henti naglaspýtunni í hausinn á Andra forðum daga og hvernig mér tókst alltaf að reka höfuðið á barninu utan í bílhurðina þegar ég kom honum fyrir í bílnum. Þetta er einhver gáfa sem mér er gefin sennilega af svipuðum toga og sú náðargafa að vera alltaf öll út í blettum. Núna er til dæmis svartur blettur á brjóstinu á hvíta bolnum mínum. Hann líkist mest fingrafari svo það er engu líkara en ég hafi laumast afsíðis með einhverjum smurapa (grease monkey) af bílaverkstæðunum hér í nágrenninu og hann skilið eftir sig þessi ummerki.