Með helgidaga á fótleggjunum
Ég læt mér ekki segjast með brúnkukremin. Nú tók ég upp á þeim fjanda að kaupa einhverjar gervisokkabuxur, þ.e. úða sem heitir Airbrush og er úðað á lappirnar. Þá á að setjast fín og jöfn húð yfir fótleggina sem hylur alla smávægilega galla og gefur fótunum brúnan og sumarlegan lit. Okkur Gumma var boðið á opnun málverkasýningar og ég leit svo á að varla væri betri tími til að láta á brúsann góða reyna en einmitt þá. Ég úðaði og úðaði, spreiaði og spreiaði en alltaf voru helgidagar og hvítir blettir á löppunum á mér. Í örvæntingu kallaði ég á eiginmanninn því hann er handlagnari og nú hófst lagfæringin. Ég stóð gleið og hélt upp um mig pilsinu meðan eiginmaðurinn úðaði upp og niður lappirnar á mér. Ég var eins og paródía af Marilyn Monroe yfir útblástursgrindinni forðum. Honum gekk lítið betur en mér og alltaf vantaði einhvers staðar smá í viðbót til að jafna litinn. Að lokum vorum við orðin svo sein að við urðum að æða út úr dyrunum og lappirnar á mér voru enn blautar og smituðu lit í pilsið mitt, á bílsætið og utan í einhvern mannaumingja sem var svo óheppinn að ganga fram hjá mér. Ekki skánuðu skallablettirnir við það. Ég sat prúð og stillt allt kvöldið með lappirnar kvenlega krosslagðar undir pilsið. Aldrei verið jafnpen á ævinni. Brúsinn á að duga í 6-8 skipti en eftir þetta eina skipti hjá mér er ekki meira en svo eftir en að duga á eina löpp á meðalflugu. Kannski óþarft að taka það fram en ég mæli ekki með þessu í stað sokkabuxna. Þótt það sé dýrt að eyðileggja einar sokkabuxur á kvöldi er enn dýrara að úða á sig 2400 kr. og vera skellótt ofan í kaupið.