fimmtudagur, nóvember 04, 2004

Error, error

Ég á það til að senda syni mínum SMS-skilaboð sem innihalda iðulega ekkert of gáfumannlegan texta. Vegna þessarar venju minnar er símanúmer hans orðið mér svo tamt að ég sló það óvart inn þegar ég var að senda föður hans indælan óð til að vekja hann svona í morgunsárið. Óðurinn var svona: Ég elska ungan mann. Gummi heitir hann. Indæll og sætur, já næstum því ætur. Ég ætla að knúsa hann. Einkasonurinn hringdi þegar honum bárust skilaboðin. Andri brostinni og helsærðri röddu: „Ég ætla að láta þig vita að ég afþakka í framtíðinni svona klám. Þú veist að ég er í Krossinum og má ekki við svona.“ Móðirin skömmustuleg: „Fyrirgefðu, ég veit ekki hvers vegna ég slysaðist til að senda þér þetta.“ Einkasonurinn alvöruþrunginni röddu og með þungri áherslu: „Það veit ég. Þú ert alltaf að senda mér einhverja vitleysu svo ég er ekkert hissa á að þú sláir inn númerið mitt í ógáti.“ Móðirin: „Jamm.“