miðvikudagur, maí 25, 2005

Herrend burrum pe

Það virðist vera eitthvað í loftinu í Kópavogsdalnum. Ég var þar á gangi fyrir stundu og mætti svertingja sem þuldi fyrir munni sér eitthvað sem hljómaði ekki ólíkt og herrend burrum pe, surrum gerrit mar. Mér hnykkti við og í fyrstu hélt ég að maðurinn væri að tala við mig en svo sá ég að hann var fullkomlega sáttur við að eiga þetta samtal við sjálfan sig. Í ljósi nýlegra ævintýra minna í dalnum þorði ég alls ekki að sýna nein undrunarmerki og gekk rólega leiðar minnar. Ég er nokkurn veginn viss um að maðurinn hefur verið að segja eitthvað jafndjúpviturt og það sem mér varð á að segja upphátt í gær.

Ferlegt fiðurfé

Alveg er ótrúlegt hversu langt framleiðendur og innflytjendur fæðubótarefna eru tilbúnir að ganga. Nú hefur einn þeirra fengið lóuna til að senda okkur sífellt þessi skilaboð: Kúú tíuu, kúú tíuu. Orð Páls Ólafssonar um að lóan hafi sagt honum að vakna og vinna fá alveg nýja merkingu í ljósi þessa. Lóan hefur auðvitað líka fengið umtalsvert fé fyrir að taka að sér þessa auglýsingaherferð. Það sést best á því að þessi ósvífni fugl hefur komið sér upp hreiðrum víða um landið.