Túnin á Ítalíu
Ég er á leið upp að Laugarvatni seinna í dag. Það verður gott að komast upp í sveit og horfa á græna akra og fögur tún. Annars þarf víst ekki að fara langt til að njóta græna litarins. Ég minni á hin ódauðlegu orð Skarphéðins frænda míns þegar hann leit út um gluggann í Bólstaðarhlíð 66 og sagði: „Það eru nú tún hérna á Ítalíu.“ Pilturinn hafði nefnilega fengið þá flugu í höfuðið að þau mæðginin væru á leið til Ítalíu vegna þess að ítalskir ferðamenn voru þeim samferða í flugvélinni frá Akureyri. En sem sé það voru grænir balir umferðareyjanna og blettirnir í kringum blokkirnar sem urðu kveikjan að þessari athugasemd sem vissulega ber athyglisgáfu hans vitni.