föstudagur, september 17, 2004

Túnin á Ítalíu

Ég er á leið upp að Laugarvatni seinna í dag. Það verður gott að komast upp í sveit og horfa á græna akra og fögur tún. Annars þarf víst ekki að fara langt til að njóta græna litarins. Ég minni á hin ódauðlegu orð Skarphéðins frænda míns þegar hann leit út um gluggann í Bólstaðarhlíð 66 og sagði: „Það eru nú tún hérna á Ítalíu.“ Pilturinn hafði nefnilega fengið þá flugu í höfuðið að þau mæðginin væru á leið til Ítalíu vegna þess að ítalskir ferðamenn voru þeim samferða í flugvélinni frá Akureyri. En sem sé það voru grænir balir umferðareyjanna og blettirnir í kringum blokkirnar sem urðu kveikjan að þessari athugasemd sem vissulega ber athyglisgáfu hans vitni.

Ævintýri á gönguför

Í gær fórum við Freyja í göngutúr og ákváðum að ganga út með Kársnesinu. Veðrið var ágætt og lítil skúta vaggaði úti á Fossvoginum. Einhverjir siglingaklúbbsmenn voru líka með börn í smábátum úti að róa og það var gaman að fylgjast með hópnum. Það eina sem spillti var að óskaplega margir hjólreiðamenn voru þarna á ferli og þeir sem þekkja Freyju vita að hún er ákveðin í að ná a.m.k. einum slíkum einhvern tíma á ævinni. Æðafuglar svömluðu í flæðarborðinu og úuðu á mig af fullkomnu miskunnarleysi. Þeir gáfu það berlega í skyn að ekki væri forsvaranlegt kona klædd flíspeysu löðrandi í hundahárum og leikfimisbuxum sem með reglulegu millibili sigu niður undir hné væri á ferli á þessum stað. Ég viðurkenndi svo sem að þeir hefðu nokkuð til síns máls en tók síðan upp á þeim skemmtilega sið að úa á móti. Það hefði svo sem ekki verið í frásögur færandi nema vegna þess að eitthvert hjólreiðamannsóféti laumaðist upp að mér á hljóðlausu hjóli og það varð til þess að síðasta úið kafnaði í hálsinum á mér og varð eiginlega bara máttleysislegt u. Ég gat hins vegar ekki betur séð en að eitthvert skítaglott breiddist yfir andlit hjólreiðamannsins um leið og hann renndi sér fram hjá.