þriðjudagur, mars 28, 2006

Guli hundurinn í ham

Hér á höfuðborgarsvæðinu hefur verið mikið hrafnager undanfarnar vikur. Krummarnir raða sér á ljósastaura, tún og húsþök og krunka sem mest þeir mega ýmist spádóma um betri tíð eða hamfarir og ósköp. Freyja telur þessa stóru, svörtu hlunka tilvalda bráð. Hún hleypur á eftir þeim um allar jarðir og hrafnarnir fljúga ekki upp fyrr en hún er alveg komin að þeim. Þá fljúga þeir aðeins spölkorn og setjast aftur og aumingja guli hundurinn hugsar með sér: Nú næ ég þessu feita fífli. Ég þarf bara að hlaupa aðeins hraðar en áðan. En um leið og tíkin sér færi á að stökkva á bráðina flýgur hrafninn upp og krunkar hæðnislega. Sneyptur gulur hundur situr eftir og að lokum tekur hann sig saman í andlitinu og til að halda í það litla sem eftir er af sjálfsvirðingunni skokkar hann burtu með skottið upp í loftið rétt eins og hann sé að segja: Mig langaði sko ekkert að ná þessu kvikindi. Það er örugglega með fuglaflensu hvort eð er.