miðvikudagur, nóvember 10, 2004

Hálfdauður, dauður, steindauður

Dauðastríð Arafats virðist ekki síður en barátta Palestínumanna og Ísraela ætla teygjast og dragast á langinn. Og ekki er annað að sjá en að það stríð sé jafnerfitt fyrir venjulegt fólk að henda reiður á og barátta þjóðanna. Fyrst heyrast fregnir af því að Arafat hafi verið fluttur hálfdauður á sjúkrahús í París. Næst berst það um heimsbyggðina að hann sé steindauður. Sú frétt var borin til baka og karlinn sagður hálfdauður eða dauður og lengi gat enginn gert upp við sig hvort væri. Nú heyrum við að Arafat hafi verið hálfdauður en sé nú í dauðadái og líklegt að á hverri stundu steindrepist hann. Blessaður arabaleiðtoginn hefur þegar drepist oftar en Hemmi Gunn. og Mark Twain samanlagt þótt fréttir af andláti hans hafi verið stórlega ýktar fram að þessu.