föstudagur, maí 13, 2005

Upplýsandi símtal

Mamman: Ég bíð bara eftir að komast heim úr vinnunni og upp í sumarbústað. Þið athugið kannski málið og sjáið til hvort þið komið upp eftir. Við verðum með standandi grill alla helgina.

Sonurinn: Nú, gáfust þið upp á að vera með liggjandi grill.

Mamman: Já, það var svona ákveðin eldhætta í kring um það og þótt pabbi þinn sé lipur með slökkvitækið var þetta orðið svolítið leiðigjarnt.

Sonurinn: Einmitt. Við sjáum þá til hvort við komum.

Elvis og súludansinn

Starfsmenn Fróða fengu rétt í þessu sent innanhússfréttabréf sem hlotið hefur hið frumlega og sérdeilis upplyftilega nafn Fróðafretið. Þar er viðtal við Guðmund okkar á Vikunni þar sem hann er spurður hvort hann hafi sofið hjá samstarfsmanni. Það hef ég ekki gert en get gefið upp að ég á í mjög sérstöku sambandi við Elvis og svo hef ég dansað súludans fyrir Jónatan ljósmyndara.

P.S. Það skal tekið fram fyrir þá sem ekki þekkja til á Fróða að Sigurjón ljósmyndari er með netfangið elvis@frodi.is og svarar jafnan á þennan veg í símann: „Elvis“. Þá ætti að vera orðið augljóst hvers vegna ég er í mjög sérstöku sambandi við Elvis.

Morgunhanar og annað fiðurfé

Hann Andri minn hefur alltaf verið morgunsvæfur. Ég er það reyndar líka en hans morgunógleði var svo mögnuð að þegar ég var að vekja hann í gamla daga leið mér eins og ég væri að reyna að særa draug upp úr gröf. Það var alveg sama hvernig var kallað, bölvað og gargað, hann haggaðist ekki í rúminu. Stundum brá ég á það ráð að halda ljósasjóv í herberginu hans. Kveikti sterk ljós og dansaði stríðsdans á gólfinu vegna þess að nú væru síðustu forvöð að drattast fram úr og koma sér í skólann. Drengurinn rumskaði ekki einu sinni og ef lætin voru orðin óheyrileg sneri hann sér í mesta lagi á hina hliðina. Mér fannst af þessum ástæðum við hæfi að senda honum vísu svona í morgunsárið.

Þú ert minn morgunhani
og alltaf á miklu spani,
frá klukkan sjö
og framundir tvö
er þú sofnar úti á plani.

Það er ekki tekið fram hvort um er að ræða sjö p.m. eða a.m.