föstudagur, janúar 06, 2006

Of mikið af hinu góða

Ég tek allt aftur sem ég sagði í gær um það hversu gott ég hefði af því að berjast úti með hundinn í rigningunni. Hér hefur sem sé verið manndrápsveður í allan morgun og ég lenti í miklum mannraunum þegar ég gekk með Freyju. Á leið niður í Kópavogsdalinn var ég með vindinn í fangið og slyddurigning barði mig í andlitið. Þetta var andstyggilegt. Það var eins og stöðugt væri verið að stinga mig með ísnálum í kinnarnar. Þegar ég kom fyrir hornið á íþróttavellinum fékk ég vindinn í hliðina og það var ekki betra. Loks fékk ég veðrið í bakið þegar ég sneri upp brekkuna og heim en þá var kraftgallinn orðinn svo þungur af bleytu að mér fannst hvert skref óyfirstíganlega þungt. Gallinn var blautur í gegn og bleytublettir komnir í fötin sem ég var í fyrir innan. Vettlingarnir mínir og skórnir voru rennandi blautir og mér var ískalt. Hundurinn lét hins vegar engan bilbug á sér finna og virtist njóta þess að berjast gegn veðrinu. Eftir allt þetta fannst mér ég skilja forfeður okkar sem börðust í mannskaðaveðrum yfir fjöll og heiðar og gáfust síðan hreinlega upp örfáum skrefum frá bæjardyrunum heima hjá sér.