mánudagur, nóvember 20, 2006

Lesblinda er smitandi

Sumir minnast þess kannski að ég hef kvartað undan lesblindu hér á þessari síðu. Það hefur einkum gerst í kjölfar þess að mér hafi tekist að lesa einhver orð svo dæmalaust vitlaust að fáum ef nokkrum tækist að leika það eftir. Nú hefur hins vegar sannast að lesblinda af þessu tagi er smitandi. Við keyptum nefnilega pítsu frá Eldsmiðjunni í gær og maðurinn minn kallaði hróðugur upp til mín þegar hann var á leið með kassana í ruslið:„Energi lík. Hér stendur energi lík.“ „Jæja,“ svaraði ég glöð. „Ætli það tákni ekki að jafnvel lík fyllist energí eftir át á Eldsmiðjupítsu.“ „Fyrirgefðu,“ kom að bragði að neðan. „Þetta var engri lík.“