þriðjudagur, janúar 10, 2006

Munurinn á að skipta og gera upp

Ég var á skyndihjálparnámskeiði í gær og tókst að drepa bæði barnið og manninn sem ég átti að endurlífga. Að minnsta kosti var ég sannfærð um að enginn myndi lifa af þessi ósköp en þeir fullvissuðu mig um það björgunarmennirnir að fólk væri harðgerðara en ég héldi. Það er eins gott að þeir hafi rétt fyrir sér ef ég einhvern tíma lendi í að þurfa að nota þessa þekkingu. Samnemendur mínir tóku eftir fínu kúkabrúnu höndunum og ég neyddist til að útskýra hvers vegna frúin var svona fín. Seinna í dag fer ég í klössun í einhverju heilsustúdíói sem heitir Fyrir og eftir en eigandinn bauð að taka stútungskellingu af Vikunni og gera hana sem nýja. Það kemur þá bara í ljós hver árangurinn verður. Kannski tekur á móti Guðmundi þegar hann kemur í febrúar slank og pen pía. Hugsanlega verður það til þess að hann sér að það borgar sig rigga upp þá gömlu fremur en að hafa fyrir því að leita uppi nýja.