miðvikudagur, október 06, 2004

Glæsikvendið með gula hundinn

Við Freyja fórum í gönguferð að vanda í morgun. Aldrei þessu vant gekk hún við hlið mér reist og glæsileg í stað þess að þeytast út um allar jarðir, togandi mig eins langt og mögulegt reyndist. Þegar ég tók hundinn sá ég fyrir hugskotsjónum sjálfa mig á gangi með undurfallegan gulan hund sem gengi hlýðinn í taumnum. Ég taldi meira að segja líklegt að ég yrði þekkt um Kópavogsbæ sem glæsikvendið með gula hundinn því svo tígulegar á velli yrðum við. Raunin reyndist allt önnur. Fljótlega kom í ljós að hundurinn hafði einstaka þörf fyrir að velta sér upp úr skít og drullu og oftar en ekki var hún mjög ókræsileg þegar komið var heim úr göngutúrum. Í allt sumar var til dæmis vinsælt að velta sér upp úr nýslegnu grasi og stóðu þá grasviskar út úr þykkum feldinum hér og þar. Eitt sinn taldi hún óhjákvæmilegt að velta sér upp úr úldnu fiskhræi úti í Kópavogshöfn og hef ég sjaldan verið þakklátari skaparanum fyrir að hafa gefið mér lélegt lyktarskyn. Á tímabili kvað svo rammt að þessu að ég var nokkuð viss um að Kópavogsbúar töluðu um teknu konuna með óræstilega hundinn. Í morgun vaknaði sem sagt von að nýju. Um næstu áramót verður glæsikvendið með gula hundinn hugsanlega talin hluti af bæjarbrag Kópavogs.