miðvikudagur, nóvember 03, 2004

Í samráði við aðra samráðendur

Alveg er það hræðilegt að hugsa til þess að olíufélögin eru búin að rýja okkur neytendur bara hreint inn að skinni til margra ára. Við liggur að maður verði kjaftstopp yfir ósvífninni í Kristni og co. Ég verð þó að viðurkenna að umræðurnar um þetta að undanförnu hafa vakið mig til umhugsunar um hvað sé ólöglegt samráð, hvað ósiðlegt samráð og hvað óhagstætt samráð. Þannig höfum við systurnar haft ákveðið samráð um jólagjafir undanfarin ár. Í því felst, til að mynda, að við ráðgumst hver við aðra um hvaða bók hver um sig eigi að gefa föður okkar. Þetta er til að tryggja að blessaður karlinn fái ekki fimm bækur sömu tegundar á aðfangadagskvöld. Hugsanlega er þetta bæði ólöglegt og ósiðlegt en óhagstætt er það ekki a.m.k. ekki fyrir þiggjanda gjafanna. Við höfum einnig nokkrum sinnum sett okkur ákveðið hámark á hvað gjafirnar skuli kosta það verður náttúrlega að teljast bæði ólöglegt og ósiðlegt því einhver okkar systra gæti tapað sér af keppnisanda og keypt nokkurra milljóna króna gjafir handa börnum hinna. Hver skynsamur maður sér í hendi sér að þetta er mjög óhagstætt fyrir börnin. Auðvitað hafa þau hag af því að samkeppnin sé sem mest. Við Guðmundur höfum líka haft samráð um hvað við gefum börnunum okkar og þegar ég hugsa betur um það ættum við auðvitað að vera í bullandi samkeppni hvort við annað um þetta. Við ættum einnig að keppa um að gefa hvort öðru sem mest og best og rembast eins og rjúpur við staura við að ekki bara slá hitt út heldur toppa sjálft sig frá árinu áður. Jamm samkeppnisjól það eru nú jól í lagi.