fimmtudagur, júlí 07, 2005

Slettur í sláturtíðinni

Andri kom hér í kvöld að hjálpa mömmu sinni að hreinsa portið. Hann hafði meðferðis háþrýstidælu tengdaföðurs síns og var vígalegur þegar hann var kominn í appelsínugulan regngalla og mundaði dæluna góðu. Ég horfði á Donald Trump reka einn vonarlærling og gáði ekki að pilti fyrr en þættinum lauk. Þá sá ég að hann lét dæluna ganga svo ég skipti mér svo sem ekki meira af því. Skömmu síðar kallaði piltur inn og lét vita að forstofan hefði fengið að kenna á dælunni. Ég fór niður og sá að ekki bara forstofan var á floti heldur var hugguleg tjörn í geymsluganginum og ofan á henni flaut ryksugan eins og sundfugl úr vísindaskáldsögu. Við tóku þrif og þvottar bæði á íbúðinni og pilturinn sem skilaði sér inn úr dyrunum var fallega kaffibrúnn af moldarslettum. Þegar ég sá andlitið á honum rifjaðist upp fyrir mér að maður nokkur á Vopnafirði hafði víst fengið á sig blóðgusu í sláturtíðinni og var ekki félegur. Einhver benti honum á þetta og hann svaraði: Já, það slettist í sláturtíðinni. Andri hefði sennilega getað tekið undir þetta en hann var kampakátur og sagði hress: Þetta var kannski aðeins of öflug buna. Þú vilt kannski að ég þrífi húsið með dælunni fyrir þig? Af einhverjum ástæðum afþakkaði ég en orðtakið að láta dæluna ganga hefur fengið nýja merkingu fyrir okkur mæðgin.

Ógnir í Lundúnaborg

Það er skrýtið hvernig þekking á staðháttum færir atburði eins og hryðjuverkin í London nær manni en ella. Þegar tvíburaturnarnir hrundu á sínum tíma fór um mig hrollur því ég hafði heimsótt útvarpsstöð í öðrum þeirra árið 1989 og átti mynd af mér með turnana í bakgrunninn. Í dag leið mér ömurlega því bæði hafði ég staðið á King's Cross járnbrautarstöðinni og Liverpool Street Station hafði ég heimsótt margoft. Að vita hvernig staðhættir eru og hversu þröngt er í göngum neðanjarðarlestanna var einhvern veginn nóg til að óhug setti að mér og ég fann fyrir djúpum skilningi og samhug með þeim sem urðu fórnarlömb sprenginganna í morgun. Á sama tíma heyrir maður fréttir af því að hús og bílar séu sprengd upp í Írak og einhvern veginn er það svo fjarlægt að skelfing þessara atburða nær ekki snerta sál manns. Svona er mannskepnan skrýtin.

Hvalaskoðun á röngum stað

Í gær fréttist af því að heilmargir hvalir hefðu elt torfur af smáufsa og sild inn í höfnina í Keflavík og hvalir hefðu sést leika sér í tugatali meðfram ströndinni í Garði. Svava systir hringdi í mig og við systur æstum hvor aðra upp í að þetta væri sjón sem vert væri að sjá. Þær nöfnurnar mamma og Guðlaug Hrefna komu síðan með okkur og við ókum sem leið lá til Keflavíkur. Þar sáust ekki lifandi kvikindi ef undan eru skilin nokkur ógæfuleg ungmenni. Næst var keyrt að Garði og allir sem ekki sátu undir stýri störðu stíft til hafs. Ef undan er skilin sjófuglamergð var þar ekkert merkilegt að sjá. Við gáfumst ekki upp heldur lögðum við Garðskagavita og kíktum enn á ný til hafs. Við vorum að verða eins og stúlkan sem starir á hafið. Ekki komum við auga á eitt hvalkvikindi. Ragnar mágur minn hringdi þegar við vorum á heimleið og benti á að leitað hefði verið langt yfir skammt í þessum túr. Við hliðina á honum sæti nefnilega hvalur sem vert væri að berja augum. Þar átti hann við kasólétta Svanhildi.