fimmtudagur, júlí 07, 2005

Hvalaskoðun á röngum stað

Í gær fréttist af því að heilmargir hvalir hefðu elt torfur af smáufsa og sild inn í höfnina í Keflavík og hvalir hefðu sést leika sér í tugatali meðfram ströndinni í Garði. Svava systir hringdi í mig og við systur æstum hvor aðra upp í að þetta væri sjón sem vert væri að sjá. Þær nöfnurnar mamma og Guðlaug Hrefna komu síðan með okkur og við ókum sem leið lá til Keflavíkur. Þar sáust ekki lifandi kvikindi ef undan eru skilin nokkur ógæfuleg ungmenni. Næst var keyrt að Garði og allir sem ekki sátu undir stýri störðu stíft til hafs. Ef undan er skilin sjófuglamergð var þar ekkert merkilegt að sjá. Við gáfumst ekki upp heldur lögðum við Garðskagavita og kíktum enn á ný til hafs. Við vorum að verða eins og stúlkan sem starir á hafið. Ekki komum við auga á eitt hvalkvikindi. Ragnar mágur minn hringdi þegar við vorum á heimleið og benti á að leitað hefði verið langt yfir skammt í þessum túr. Við hliðina á honum sæti nefnilega hvalur sem vert væri að berja augum. Þar átti hann við kasólétta Svanhildi.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home