sunnudagur, júlí 03, 2005

Kópavogurinn iðar af lífi

Ég er komin í sumarfrí! Jibbí! Ég hélt upp á fríið með því að sofa nánast allan daginn í gær. Í dag var ég skárri og komst fram úr um tíu. Við Freyja fengum okkur göngutúr út í Kópavogshöfn og vogurinn hreinlega iðar af lífi. Litlir æðarungar syntu um í fjöruborðinu og príluðu upp á steina til að tína æti úr þaranum. Alls konar fuglar voru í fjörunni að leita að æti og mófuglar við göngustíginn. Við Kópavogslaug mættum við svo heldur óskemmtilegra kvikindi því í ræsinu við götuna hljóp rotta, risastór og viðbjóðsleg. Freyja taldi best að hún fengi að sýna nagdýrinu hvar Davíð keypti ölið en ég hafði aðrar hugmyndir. Hún mátti því horfa ýlfrandi á eftir rottunni þar sem hún hljóp yfir götuna og inn í næsta garð. Aumingja tíkin hélt sjálfsagt að þar hefði hún misst gómsætan bita. Ég vorkenni aftur á móti fólkinu sem á garðinn þar sem rottan endaði.

1 Comments:

Blogger Svava said...

Hér í gamla daga hefðir þú reynt að elta þessa rottu og hafa með þér heim. Fordómar hafa greinilega vaxið með aldrinum :-)

1:36 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home