miðvikudagur, febrúar 07, 2007

Þyngdarleysið og ástin

Alveg dásamleg frétt var birt á mbl.is í dag. Þar sagði frá kvengeimfara sem reyndi að ræna konu sem hún taldi keppinaut sinn um ástir geimstráks nokkurs sem unnið hafði með báðum. Í viðleitni sinni til að fremja hinn fullkomna glæp ferðaðist konan langan veg með bleiu til að þurfa ekki að stoppa og sinna þörfum náttúrunnar og þar með búa til væntanleg vitni að ferðum sínum. Hún setti síðan upp hárkollu og fylgdi fórnarlambi sínu eftir í þeim dularbúningi allt þar til hún réðst á það á bílastæði fyrir utan flugvöll. Þegar lögregla handtók þennan ástsjúka geimfara var hann vel vopnaður piparúða, kylfu og gott ef ekki rafmagnsbyssu. Kona þessi fór í ferð með geimferjunni Discovery og nú veltir maður fyrir sér hvort síðasta glóran í kollinum á henni hafi svifið út um eyrun í þyngdarleysinu. Blessuð manneskjan er víst gift og þriggja barna móðir. Mikið skelfing hlýtur að vera gaman að vera dóttir eða sonur hennar þessa dagana.

Svo kemur hér eftirskrift. Ég er farin að blogga á Moggablogginu. Slóðin þar er www.steingerdur.blog.is

Allt vald spillir

Alveg er það merkilegt hvað valdið spillir manninum. Eiginlega má segja að því meira vald sem einstaklingi er gefið yfir öðrum því viðbjóðslegri verður misnotkun hans á valdinu. Þrjú dæmi um þetta eru einmitt mjög augljós okkur Íslendingum nú. Fyrst misnotkun Guðmundar í Byrginu á skjólstæðingum sínum sem er sérlega ógeðfelld í ljósi þess að um var að ræða stúlkur sem allar höfðu mátt þola kynferðislegt ofbeldi í mismiklum mæli. Það er því miður alveg öruggt að stúlkur sem hafa verið í mikilli eiturlyfjaneyslu hafa verið misnotaðar á margan hátt af bæði dópsölum og félögum sínum. Einhvern veginn finnst manni enn andstyggilegra að menn skuli geta hugsað sér að níðast á þeim sem þegar er búið að misþyrma á andstyggilegan hátt. Það er eins og sagan af kennaranum sem barði strákana í bekknum af því þeir voru hvort sem er barðir heima hjá sér. Hitt dæmið eru kynferðisbrotamennirnir sem Kompás veiddi í gildru en þessir menn notfæra sér sakleysi og reynsluleysi ungra stúlkna til að tæla þær til sín og misþyrma þeim. Og að lokum er það þetta hroðalega ofbeldi og viðbjóður sem viðgekkst á unglingaheimilinu á Breiðuvík. Vissulega er Ísland ekki einsdæmi og alls staðar í heiminum eru dæmi um slíkt. En það gerir þetta ekki betra. Ég er farin að halda að við megum aldrei undir nokkrum kringumstæðum gefa neinum manni vald yfir öðrum því ekki er annað að sjá en það endi alltaf á einn veg.

mánudagur, febrúar 05, 2007

Nauðsynleg viðbót við barnaverndarlög

Mörgum finnst mannanafnanefnd óþörf og hugsanlega er hún það en hvernig sem á það er litið ætti það að varða við barnaverndarlög að skíra börn sín öðrum eins ónefnum.

STÚLKNANÖFN:

Eggrún Bogey
Oddfreyja Örbrún
Dúfa Snót
Ljótunn Hlökk
Himinbjörg Hind
Randalín Þrá
Baldey Blíða
Bóthildur Brák
Loftveig Vísa
Þúfa Þöll
Þjóðbjörg Þula
Stígheiður Stjarna
Skarpheiður Skuld
Kormlöð Þrá
Ægileif Hlökk
Venus Vígdögg
Hugljúf Ísmey
Ormheiður Pollý
Geirlöð Gytta
Niðbjörg Njóla

DRENGJANÖFN:
Beinteinn Búri
Dufþakur Dreki
Hildiglúmur Bambi
Fengur Fífill
Gottsveinn Galdur
Grankell Safír
Kaktus Ylur
Þorgautur Þyrnir
Melkólmur Grani
Ljótur Ljósálfur
Náttmörður Neisti
Hlöðmundur Hrappur
Hraunar Grani
Ráðvarður Otur
Reginbaldur Rómeó
Kópur Kristall
Þangbrandur Þjálfi
Sigurlás Skefill
Þjóðbjörn Skuggi

Endurminningin er svo glögg

Það telst tæpast til tíðinda í dag þótt fólk skilji en annað var uppi á teningnum fyrir rúmri öld, eða nánar tiltekið árið 1835, en það ár er fært í kirkjubók Grenjaðarstaðar við nafn Guðnýjar Jónsdóttur undir athugasemdum við brottflutta úr sókninni: „kastað úr hjónabandi saklausri af manni hennar." Þetta er undarleg færsla í kirkjubók og tæpast hlutlaus. Þótt kirkjubækur þegi oft um atburði sem sagnfræðingum þykja mikilsverðir segir þessi færsla okkur að skilnaðurinn er að frumkvæði eiginmannsins og konunni hann á móti skapi. Að baki liggur greinilega einhver merkileg saga.

Guðný var dóttir séra Jóns Jónssonar frá Stærra-Árskógi. Æskuheimili hennar var talið einstakt menningarheimili og þau systkinin gefin fyrir fagrar menntir. Guðný var sögð falleg, fíngerð og einstaklega vel gefin. Hún hafði yndi af tónlist og söng og var skáldmælt. Auk þess var hún örlát og blíðlynd og kom sér að jafnaði ákaflega vel hvar sem var vegna þeirra eðliskosta.

Sveinn Níelsson var talin gáfaður og glæsilegur. Hann leitaði til Jóns föður Guðnýjar vegna heilsubrests, en hann þótti slyngur læknir, og réði sig í vist að Stærra-Árskógi til að leita sér lækninga. Brátt tók að bera á því að hann og Guðný væru farin að draga sig saman og eftir að Sveinn var vígður djákni til tengdaföðurs síns og var síðasti maður sem hlaut djáknavígslu í lútherskum sið á Íslandi þar til á tuttugustu öld. Þegar Sveini var veittur Grenjaðarstaður giftust þau. Á Grenjaðarstað dvöldu ungu hjónin aðeins ár en þá fluttu þau að Klömbrum og var Guðný að jafnaði kennd við þann bæ.

Með ungu hjónunum þótti jafnræði og sennilega hafa flestir talið að björt framtíð biði þeirra. Séra Sveinn var atorkumaður og búmaður góður. Hann var góður smiður og hafði lært silfursmíði hjá Þorgrími gullsmið á Bessastöðum, föður Gríms Thomsen. Sveinn var góður kennari og oft beðinn að búa nemendur undir skóla. Þau hjónin komust því vel af efnalega þrátt fyrir að það orð lægi á að séra Sveini að honum þætti rausn húsmóðurinnar og hjálpfýsi fullmikill á stundum.

Ekki var sambúðin þó með öllu áfallalaus því á fyrstu hjúskaparárunum misstu þau hjónin tvö börn sem þau treguðu mjög, eins og saknaðarljóð sem þau ortu bera vitni um. Stundum færir sorgin fólk nær hvort öðru en í sumum tilfellum sundrar hún. Ómögulegt er að segja hvort sú hafi orðið raunin með þau Guðnýju og Svein en síðar eignuðust þau tvö börn saman sem lifðu og náðu fullorðinsaldri.

Sjaldan lýgur almannarómur segir máltækið og það var haft á orði um séra Svein að hann liti sjálfan sig ósmáum augum og þyldi það illa þætti honum minna úr sér gert en efni stæðu til. Guðnýju var á annan veg farið. Hún gerði gjarnan grín að sjálfri sér og þótti alþýðleg og blátt áfram. Þrátt fyrir ólíka skapgerð varð þess þó aldrei vart að þeim kæmi illa saman eða að erfiðleikar og brestir væru í hjónabandinu. Sennilega hafa menn uppgötvað þennan mismun eftir á og tínt til allar þær ástæður sem þeim gat hugkvæmst til að skýra skilnað sem þótti óskiljanlegur.

Guðný var svo vinsæl af almenningi og öllum sem kynntust henni að menn töldu gjarnan að stórlæti séra Sveins hafi mestu ráðið um skilnaðinn og að hann hafi átt bágt með að þola hve mjög kona hans bar af honum að mannkostum og gáfum. Þegar Guðný dó svo ári eftir skilnaðinn var það einróma álit allra að sorg hennar vegna hans hafi dregið hana til dauða. Þannig er skráð í kirkjubók Grenjaðarstaðar í dánarskránni að hún hafi látist „...af sjúkdómi orsökuðum af skilnaðargremjunni." Dómar almennings lögðust þungt á mann hennar. Bjarni amtmaður Thorarensen kallar hann þræl í bréfi til vina sinna og Tómas Sæmundsson segir í grein í 3. árgangi Fjölnis: „Einnar konu er skylt að minnast meðal þeirra, er önduðust þetta ár, því þó lítt hafi hennar gætt verið – eins og vandi er um konur – voru samt kjör hennar og gáfur íhugunarverðari en almennt er á Íslandi...." Síðar segir hann: „Hún þótti álitlega gift, er djákninn á Grenjaðarstað, gáfumaður og atgervis, hafði fengið hennar, og aungvan hafði grunað, að hann mundi sjá sig það um hönd, eftir níu ára samvistir, að hann vildi breyta þessu, eins og hann gerði. Fór hann þá vestur í Húnavatnssýslu að brauði sem búið var að veita honum; tók vígslu; og er nú giftur aftur! en hún fór með mági sínum og systur norður á Raufarhöfn og má vera, að þetta hafi hana til bana dregið."

Þetta sýnir betur en flest annað hverjum augum séra Sveinn var almennt litinn en vitað er að Guðný tók skilnaðinn ákaflega nærri sér. Hún orti um sársauka sinn ákaflega fallegt kvæði sem hún sendi í bréfi til Kristrúnar systur sinnar á Grenjaðarstað. Kvæðið var birt í Fjölni og varð landfleygt á örskömmum tíma. Upphafserindi kvæðisins er svohljóðandi:

Endurminningin er svo glögg
um allt það, sem í Klömbrum skeði,
fyrir það augna fellur dögg
og felur stundum alla gleði.
Þú getur nærri, gæskan mín,
Guðný hugsar um óhöpp sín.

Síðar í sama kvæði segir hún:

Það er ekki svo þægilegt,
þegar vinanna bregzt ágæti,
hjartanu svíður, heldur frekt,
hamingjan sýnist rýma sætin
inndælar vonir fjúka frá,
fellur skemmtunin öll í dá.

Hún stynur yfir hve hugprýðin sé smá og hversu erfitt sér reynist að horfa fram á daginn á hverjum morgni. Hún segist þó hjara á daginn og hljóta hvíld í svefninum á kvöldin. Guðný orti einnig annað kvæði um skilnaðinn sem heitir Sit ég og syrgi. Hluti af upphafserindi þess hljóðar svo:

Sit ég og syrgi mér horfinn
sárt þreyða vininn,
er lifir í laufgræna dalnum
þótt látin sé ástin.

Séra Sveinn giftist í annað sinn Guðrúnu Jónsdóttur sama ár og Guðný dó eins og kemur fram í grein Tómasar. Það hjónaband var farsælt og áttu þau nokkur börn. Seint verður hægt að komast að niðurstöðu um hvað olli í raun og veru skilnaði þeirra Guðnýjar og Sveins og víst er að konan, sem sagði að það væri svo margt milli hjóna sem enginn sæi, vissi jafnlangt nefi sínu. En hitt er vitað að Sveinn talaði ævinlega vel og hlýlega um fyrri konu sína.

þriðjudagur, janúar 30, 2007

Hormálið á Kúgili

Þið hafið nú gott af því að lesa og þess vegna kemur hér langlokupistill.

Árið 1839 var ekkert góðæri á Íslandi. Dýrasta eign kotbóndans var sauðkindin og henni ekki fórnað jafnvel til að halda lífi í sínum nánustu. Örfín lína skildi milli fátæktar og örbirgðar og það var á ábyrgð húsfreyjunnar að sjá til þess að matföng entust út veturinn. Til þess þurfti útsjónarsemi og stundum verstu nísku. Sagan af heimilisfólkinu á Kúgili er sérlega lýsandi fyrir lífið á þessum tíma einkum verstu hliðar þess.

Að Kúgili í Eyjafirði bjuggu hjónin Þórður Þorfinnsson og Þórunn Jónsdóttir. Á heimili þeirra var einnig móðir Þórðar, Anna Þórðardóttir. Karl faðir hans, Þorfinnur Brandsson, hafði brugðið búi og afhent Þórði helming eigna sinna gegn því að sonurinn sæi um móður sína meðan hún lifði. Þorfinnur hélt eftir sínum helming til að sjá fyrir sér og var í húsmennsku hjá syni sínum.

Þennan vetur er kuldi mikill og vosbúð í baðstofunni á Kúgili þar sem Anna Þórðardóttir liggur. Hún er sjötíu og tveggja ára og farin að heilsu. Sveitarrómur pískrar um að Anna muni ekki njóta hlýju eða góðs atlætis hjá tengdadóttur sinni og þegar gamla konan deyr kemst pískrið í hámæli.

Sýslumaður látinn vita

Yfirvöld sjá sér loks ekki annað fært en að bregðast við og séra Hákon Espólín í Stærra-Árskógi skrifar Birni Jónssyni, hreppstjóra á Auðbrekku. Hreppstjórinn sendir bréfið áfram til sýslumanns Eyjafjarðarsýslu. Hvað svo sem prestur hefur sagt er augljóst að það hefur verið kveðið fastar að orði en svo að eingöngu hafi verið haft eftir sveitaslúðrið því sýslumaður skipar að lík Önnu sé flutt til sín til skoðunar. Honum er þá sagt að búið sé að jarða Önnu en sex menn hafi skoðað líkið áður.

Sýslumaður telur næga ástæðu til að rétta í málinu og hinn 21. apríl er hafið réttarþing að Stærra-Árskógi. Kölluð eru fyrir ótal vitni og bera allir að margt hafi verið skrafa um illa meðferð á Önnu. Björn Jónsson hreppstjóri hafði þess vegna gert sér ferð að Kúgili til að kanna hvað væri hæft í þessum orðrómi. Honum sýndist Anna grönn og vesælleg en ekki svo mjög. Hann spyr gömlu konuna um hvernig viðurgjörnings hún njóti en hún fer undan í flæmingi og kemur sér hjá að tala um það. Hreppstjóranum þykir þó ekki ástæða til að aðhafast frekar.

Nágrannar þeirra á Kúgili bera þeim feðgum almennt vel söguna en Þórunn húsfreyja hefur slæmt orð á sér. Hún þykir þrasgjörn, nísk, nokkuð heimsk og illa lynt. Tengdafaðir hennar hefur það um hana að segja að hún hafi ekki látið skera nóg fé til heimilisins um haustið og að hún sé ekki nógu góð manneskja.

Sýslumaður skilur ekki neitt í neinu

Bertel Holm Borgen sýslumaður Eyjafjarðarsýslu er danskur og hann skilur ekki kotbóndann sem leiddur hefur verið fyrir hann. Sýslumaður spyr því agndofa hvers vegna sonurinn hafi þá ekki skorið eina af kindum sínum móður sinni og matarlitlu búi til bjargar. Þorfinnur svarar að það hafi hann ekki getað vegna skulda. Sýsli innir hann þá eftir hvers vegna hann hafi sjálfur ekki fórnað einhverjum sauða sinna konunni til hressingar. Sá gamli svarar: „Ég mátti ekki missa þá, ég er að berjast fyrir mér sjálfum.“

Borgen sannfærist fljótt um sekt Þórunnar húsfreyju en allt bendir til að þeir feðgar hafi lítið fylgst með og verið afskiptalitlir um matarskammta eða önnur innanhússmál. Sýslumaður einbeitir sér þess vegna að því að knýja fram játningu konunnar. Hann lætur grafa upp lík Önnu Þórðardóttur og tengdadóttir hennar er látin votta að þarna sé tengdamóðir hennar komin. Í dómsmálabókinni segir að hún hafi við það verið „stúrin og niðurslegin“. Og Borgen hefur erindi sem erfiði, Þórunn játar. Hún segist allan þennan vetur hafa gefið Önnu lítið að borða í þeim tilgangi að hún skyldi deyja úr hor. Hún tíundar matarskammtinn sem sannarlega var skorinn við nögl en segir að þetta hafi ekki komið til fyrr en þetta misserið því áður hafi Anna getað gert ýmislegt til gagns. Þennan vetur hafði hún hins vegar legið í kör. Þórunn játar einnig að hafa talað illa til gömlu konunnar og verið henni vond.

Húsfreyjan unga segir þetta ekki hafa verið samantekin ráð þeirra hjóna en þó muni Þórður hafa vitað hversu naumt móður hans var skammtað. Síðan biður hún guð og menn að fyrirgefa sér þennan misgjörning. Þeir feðgar eru næst kallaðir fyrir aftur og enn sem fyrr segja þeir Þórunni bera alla ábyrgð á matarskömmtun og ekkert hafi þýtt fyrir þá að reyna að tala um fyrir henni. Þórunn væri ráðrík og hafi ætíð farið sínu fram. Þórður reynir þó að bera blak af konu sinni og segir að hún hafi aldrei kvartað við sig um að móðir hans væri til þyngsla. Hún hafi að vísu haft á orði þegar gamla konan hafði legið lengi veik að gott væri ef guð tæki hana til sín svo hún þyrfti ekki að þjást svona mikið.

Ekki er sopið kálið

Borgen telur sig hafa unnið mikinn sigur, fyrir liggi játning og nú sé ekki annað eftir en að dæma. Hann setur réttarþing 2. maí til að ljúka vitnaleiðslum og leggja málið í dóm. En Þórunn húsfreyja er ólíkindatól og snýr taflinu óðar en hendi verði veifað. Þegar hún kemur fyrir réttinn þennan dag dregur hún fyrri játningu sína til baka og kveður hana tilkomna af aðgæsluleysi, gáleysi og sansatruflun sem komið hafi yfir sig þegar hún var að hugsa um þetta mál sennilega vegna þess að hún væri ólétt.

Rétturinn varð óstarfhæfur um stund sökum undrunar sýslumanns en síðan tekur hann til við að reyna að flækja húsfreyju í eigin neti. Hann lætur lesa upp framburð hennar og nefnir að hún muni hvert smáatriði um matarskammtinn og beri það hvorki vitni um gáleysi né aðgæsluleysi hvað þá sansatruflun. Þórunn svarar að það geti vel komið fyrir að maður sé með fullum sönsum á einu augnabliki en á öðru ekki.

Eftir þessa uppákomu tekur sýslumaður sér réttarhlé nokkra daga en síðan er Þórunn kölluð fyrir aftur. Þau þrefa fram og aftur og enn reynir sýslumaður að koma henni á kné en hún verst öllu fimlega. Hún játar að Anna heitin hafi fengið of lítið að borða og telur að það ásamt kuldanum í baðstofunni hafi sennilega flýtt dauða hennar. Borgen finnur þarna snöggan blett og er fljótur að fylgja eftir og spyr hvort hún h afi þá ekki gert sér grein fyrir því um veturinn hvert stefndi?

Þórunn segist eiginlega ekkii hafa hugsað um það. Enn heggur Borgen og spyr hvort í þessu orði „eiginlega“, liggi ekki ábending um að hún muni hafa hugsað um þetta og því verið meðvituð um að tengdamóður hennar biði ekki annað en dauðinn ef ekki yrði bót á aðbúnaði hennar. Þórunn svarar að hún sé fávís kona og viti ekki hvað þetta orð þýði en það hafi verið eftir dauða tengdamóður sinnar að grunur um að ofangreindar þrjár orsakir hafi valdið dauða hennar hafi vaknað. Og þessi kona hlaut þann vitnisburð sveitunga sinna að hún væri heimsk.

Sýknuð í landsyfirrétti og hæstarétti

Hvernig sem Borgen reynir fær hann húsfreyju ekki til að játa aftur að hún hafi einsett sér að losa sig við karlæga tengdamóður sína. Í forsendum dómsins er fæðuskortur talin önnur af dánarorsökum Önnu ásamt meinsemd í lifur. Borgen fer þó ekki ofan af því að Þórunn hafi af ásetningi og vísvitandi komið af sér þeirri heimilisbyrði sem Anna var orðin. Hann dæmir hana því til að erfiða í betrunarhúsi í Kaupmannahöfn í sex ár. Þeir feðgar voru dæmdir til að greiða sex ríkisdala bætur í fátækrasjóð Arnarneshrepps.

Landsyfirréttur sýknaði seinna Þórunni en gerði henni að greiða varðhaldskostnað og öll lögleg útgjöld af sökinni. Hæstiréttur staðfesti þann dóm og bætti við 20 vandarhögga refsingu við. Allar eigur Kúgilsfólksins voru því seldar á uppboði til að mæta málskostnaðinum og þar með talið sauðféð allt sem ekki mátti fórna til að hægt væri að hressa gamla sjúka konu á nýmeti á Þorranum.

En hvort Þórunn húsfreyja var kaldrifjaður morðingi eða einfaldlega aðhaldssöm húsfreyja sem af ótta við örbirgðina tók þá áhættu að örlitlir matarskammtar nægðu til að gamalmennið tórði til vorsins skal ósagt látið. Því verður sennilega aldrei fullsvarað en víst er að fátæktin er ekki til þess fallin að rækta manngæsku hjá sumum. Kúgilsfólkið tapaði öllu sínu vegna dauða gömlu konunnar og því hafa þau hvernig sem á allt er litið hlotið makleg málagjöld.

mánudagur, janúar 29, 2007

Prentvillupúkinn enn á sveimi

Ég elska prentvillur. Ég rakst á þessa fyrirsögn inn á www.mannlif.is Konungssinar í fjármálaráðuneytinu. Hvað vesalings kóngi ætli þeir hafi fórnað og skorið sinarnar úr þarna hjá Geir Haarde? Og til hvers ætli þeir noti sinarnar? Eru þær sippubönd?

Hin dularfulla lágvaxna kona

Gurrí skrifar skemmtilegt blogg um reynslu sína af spákonum og auðvitað get ég ekki stillt mig um að segja ykkur nokkrar góðar. Ég heiti Steingerður og engum dettur í hug að foreldrar með fullu viti eða að minnsta kosti með snefil af ást og umhyggju fyrir unganum sínum skíri barnið sitt öðru eins nafni. Þess vegna er viss passi að spákonur sjá ævinlega fylgja mér lágvaxna konu í peysufötum sem ég er skírð eftir. Það vill svo til að nafnið mitt er algerlega út í loftið og komið til vegna þess að mamma er stórskrýtin og fannst það fallegt. Í okkar ætt er því engin önnur Steingerður og er Þórður frændi komin með ættartréð aftur að árið 452 fyrir krist. Í minni ætt er sömuleiðis leitun á lágvöxnum konum þannig að það er algjör ráðgáta hver þessi lágvaxna peysufatapía er. Kannski er þetta nafnadísin fyrst það er til tannálfur (tooth fairy) er bara rökrétt að álykta að einhver góðgjörn dís rölti um allt á eftir þeim sem eru svo óheppnir að hafa verið skírðir ónefnum.

Ein spákona sem ég fór til sá mann á jeppa sem myndi heilla mig upp úr skónum og það svo mjög að ég yfirgæfi eiginmanninn fyrir hann. Ég hangi nú með þeim sama enn og hann er búinn að kaupa handa mér jeppling. Kannski sá spádómur hafi þar með ræst.

Ein spáði mér fimm börnum. Þau eru tvö og ekkert bólar á einu enn. Að vísu á maður alltaf að líta þetta jákvæðum augum þannig að kannski taldi hún kettina og hundinn með en þá ættu börnin mín að vera átta og þrjú látin.

Ein spáði mér frægð og frama á leiksviðinu en önnur sá glæstan feril í stjórnmálum. Ég er hins vegar ekki viss um að mér endist ævin til að framkvæma þetta allt.

fimmtudagur, janúar 25, 2007

Loftur hinn ljúfi

Við hjónin mættum í hesthúsin eldsnemma í morgun og gáfum níu hestum hey. Okkur var vel fagnað þegar við komum en meðan við brösuðum við að kveikja ljós í hlöðunni og ýmislegt fleira sem ekki var alveg á hreinu urðu ýmsir órólegir og voru teknir að kumra og stappa með framfótunum. En að lokum gekk þetta og þegar tuggan var komin í jöturnar kyrrðist mjög í húsinu og ekkert heyrðist nema tannagnístur þegar hrossin voru að tyggja. Freyja var skíthrædd við þessar stóru skepnur sem hún hefur sjaldan séð í návígi áður en vildi fylgja húsbændum sínum dyggilega. Hún skaust því eldsnöggt fram og aftur eftir ganginum með skottið milli fótanna. Eftir því sem á leið óx henni ásmegin og undir það síðasta var mín farin að ganga bísperrt um hesthúsgólfið. Loftur reyndist hinn ljúfasti hestur og tók mér af mikilli þolinmæði þegar ég kíkti á veika fótinn. Það er ótrúlegt hvað hann hefur náð sér en hann lenti í rimlahliði og allt skinn og kjöt flettist af öðrum framfætinum svo sást inn í bein. Dýralæknirinn græddi gervihúð eða eitthvað slíkt ofan á fótinn og sárið hefst mjög vel við. Allar líkur eru á að Loftur muni ná sér að fullu. Hann er ákaflega duglegur þegar dýralæknirinn skoðar hann og bíður þolinmóður eftir að fá nammi að skoðun lokinni. Gummi fer með hann í skoðun klukkan þrjú í dag en Freyja fær sennilega ekki að koma með í það ævintýri.

Og að lokum ég hef rekist á nokkra fleiri pistla við tiltekt í tölvunni en ætla að hvíla ykkur á langlokufærslum í smátíma.

þriðjudagur, janúar 23, 2007

Svefndrungi á þorra

Ætli Þorri konungur haldi á svefnþorni og sæti færis að stinga saklausar konur með því meðan hann geysist yfir lönd og láð? Ég er að minnsta kosti svo hryllilega syfjuð þessa dagana að ég þarf að beita sjálfa mig hálftíma fortölum áður en ég næ að drattast fram úr á morgnana. Freyja nýtur góðs af því að Gummi er heima annars fengi hún sennilega litla hreyfingu. En bráðum mun þetta breytast því við hjónin höfum tekið að okkur að passa hest sem er að jafna sig eftir fótbrot og á fimmtudag og föstudag verð ég því að rífa mig upp eldsnemma og fara og gefa Lofti (hesturinn heitir það).

mánudagur, janúar 22, 2007

Stórt er nú höggvið

Og enn annar:

Einn hinna athyglisverðari Íslendingasagnaþátta er Þorsteins þáttur stangarhöggs. Þar er sagt frá Þórarni bónda í Sunnudal í Vopnafirði og syni hans Þorsteini.

Maður að nafni Þórður var húskarl Bjarna á Hofi, hann var ójafnaðarmaður og þóttist að því meiri að vera í þjónustu ríkismanns. Einhverju sinni mætast Þorsteinn og Þórður með sinn hvorn unghestinn í hestaati. Hestur Þórðar vék sér undan biti stóðhestsins sem Þorsteinn atti og reiddist Þórður því. Hann slær því mikið högg á nasir hests Þorsteins sem svarar í sömu mynt. Þá gafst hestur Þórðar upp og var ljóst að hann hafði tapað leiknum. Þórður reiðir þá hestastaf sinn til höggs og slær Þorstein sem hlaut af sár við augnabrúnina. Þorsteinn tók þessu rólega batt um sárið og bað menn að segja ekki föður sínum frá þessu atviki.

Tveir aðrir húskarlar Bjarna á Hofi þeir Þórhallur og Þorvaldur gerðu grín að þessu atviki, uppnefndu Þorstein og kölluðu hann stangarhögg. En eins og alltaf gerist varð einhver til að kjafta í karl föður Þorsteins og ekki leið á löngu þar til hann tók að núa atvikinu syni sínum um nasir. Spurði karl hann hvort honum væri ekki illt í höfuðbeinunum og hvort hann myndi ekki hafa verið lostinn í svima sem hundur á hestaþinginu.

Frýjað til mannvíga

Hvort sem þeir ræddu þetta lengur eða skemur feðgar varð afleiðingin sú að Þorstienn stóðst ekki frýunarorð karlsins, gekk að heiman með vopn sín og hitti Þórð við hesthús Bjarna á Hofi. Átti Þórður ekki afturkvæmt úr þeirri hrossavitjun. Þorsteinn kemur við á Hofi í heimleiðinni og biður konu nokkra er hann hittir utandyra að skila því til Bjarna að hann hafi stangað Þórð hestasvein hans og muni Þórður bíða þess að húsbóndi hans eigi leið framhjá hesthúsum sínum.

Bjarni fær fréttirnar með skilum og býr vígsmál á hendur Þorsteini og fær hann dæmdan til skóggangs. Ekki verður þess vart að Þorsteinn hafi kippt sér upp við að vera dæmdur skógarmaður því hann situr rólegur í búi föður síns sem fyrr. Taka menn þá sem óðast að brýna Bjarna og hvetja hann til að lauga virðingu sína. Þeir húskarlar Þórhallur og Þorvaldur voru manna ólatastir við þá iðju en hvort sem það var ætlun þeirra eða ekki verður skraf þeirra til þess að Bjarni sendir þá í Sunnudal til að hefna harma sinna. Hann segir þeim að hann telji þá best til þess líklegasta að þvo þennan flekk af virðingu sinni og biður þá að færa sér höfuð Þorsteins. Ekki töldu þeir félagar það ofverkið sitt og halda sem leið liggur út í Sunnudal.

Þar hitta þeir Þorstein og segja honum að þeir væru að leita hrossa en teldu sig ekki geta fundið þau við túngarðinn nema hann vísaði þeim á þau. Þorsteinn gerir það en viðskipti þeirra enda með því að Þorsteinn rekur þá báða í gegn með sverði sínu, bindur þá á bak öðrum hesti þeirra og lætur taumana á háls hestinum sem síðan töltir heim til Hofs. Á hlaðinu taka aðrir húskarlar ríkismannsins við félögum sínum og ganga í bæ og segja Bjarna að Þorvaldur og Þórhallur séu heim komnir og muni eigi erindislaust farið hafa.

Köld eru kvennaráð

Nú er allt kyrrt um hríð eða þar til Rannveig kona Bjarna getur ekki stillt sig um að minnast örlítið á það við bónda sinn í sænginni að um fátt annað sé meira talað í héraðinu en linkind hans við Þorstein stangarhögg. Bjarni býr sig þá til ferðar daginn eftir og heimsækir Þorstein í Sunnudal. Hann skorar á hann til einvígis við sig og tekur Þorsteinn áskoruninni. Áður en þeir berjast biður Þorsteinn Bjarna að sjá fyrir föður sínum falli hann.

Berjast þeir síðan á hól í Sunnudalstúninu af harðfengi miklu þar til Bjarni biður um hlé því hann þyrstir af erfiðinu, segist enda óvanari stritinu en Þorsteinn. Þorsteinn býður honum bæjarlækinn til að drekka úr og varla er Bjarni er búinn að svala þorstanum og bardaginn hafinn að nýju en hann verður þess var að skóþvengur hans er laus. „Margt hendir mig í dag,“ segir þá Bjarni. Stillingarmaðurinn Þorsteinn leyfir andstæðing sínum að binda þvenginn, gengur í bæ á meðan og sækir tvo skildi og sverð. Réttir hann Bjarna sverð og segir það frá föður sínum og ekki muni það bíta verr en það sem hann hafði áður, annan skjöldinn fær Bjarni líka en hinn ætlar Þorsteinn sér því hann segist ekki nenna að standa hlífðarlaus undir höggum Bjarna lengur.

Bjarni segist þá ekki geta skorast undan að berjast lengur en Þorsteinn lofar honum að höggva ekki frekt. Við það móðgast Bjarni og heggur allan skjöldinn af Þorsteini sem umsvifalaust svara í sömu mynt.

,,Stórt er nú höggvið,” segir Bjarni þá. En Þorsteinn bendir á að Bjarni hafi ekki hoggið minna. Þegar svo var komið voru þeir búnir að fá nóg af bardögum í bili og ákveða að sættast. Bjarni gengur til bæjar og ætlar að heilsa upp á Þórarinn gamla en karlinn er skapstyggur að vanda heggur til hans með sverði sem hann hafði falið undir sæng sinni. Bjarna hnykkir við og tilkynnir Þórarni að hann sé allra fretkarla armastur og muni hann hafa Þorstein son hans á brott með sér til Hofs og fá honum húskarla til að sjá fyrir búinu. Þorsteinn var síðan á Hofi með Bjarna eftir það.

Að lokum er sagt frá því að Bjarni hafi á efri árum ferðast suður um lönd og látist á Ítalíu og verið grafinn á bæ að nafni Vateri sem sé skammt frá Róm.

Þessi Íslendingasagnaþáttur er merkilegur ekki síst fyrir þær sakir að ófriðurinn milli Bjarna og Þorsteins tekur ekki á sig neinn hetjublæ. Menn eru seinþreyttir til vandræða og vilja bara sitja að búum sínum í friði. Það þarf eiginkonur eða alla sveitina til að reka þá af stað til mannvíga og sættir nást þegar menn eru þreyttir á að slást með bitlausum sverðum upp á hól. Þá riðu hetjur um héröð verður einhvern veginn merkingarlaust í þessu ljósi og kímnin sem skín af orðalagi þáttarins er af öðru og raunsærra tagi en fyndni annarra Íslendingasagna.

Konuraunir assesors Bjarna

Hér kemur annar Lesbókarpistill:

Hugsanlega tók fallegt vorveður með svalri hafgolu og útsýn til Snæfellsjökuls á móti assesor Bjarna Thorarensen þegar hann steig á land af vorskipi árið 1811. Líkt og venjulega þegar fréttist af skipakomu í fásinninu voru múgur og margmenni stödd í nágrenni fjörunnar þegar bátarnir renndu að landi með farþegana og ábyggilega hafa margir fylgst sérstaklega með embættismanninum unga og stungið saman nefjum um hversu glæsilegur hann væri og vel til fara.

Bjarni hafði verið skipaður aukadómari við landsyfirréttinn eftir níu ára dvöl í Kaupmannahöfn við nám og störf. Eitthvað hafði orðstír hans flogið á undan honum og menn þóttust vita að þar færi gáfumaður og skáld gott en jafnframt nokkuð aðsópsmikill, stórorður og grobbinn gleðimaður.

Bjarni sest fyrst að í Reykjavík hjá dönskum verslunarmanni Jens Klog og Guðrúnu Jónsdóttur konu hans sem var dóttir eins af vefurunum í Innréttingum Skúla fógeta. Jens lést skömmu síðar og flutti Bjarni sig þá um set. Maddama Klog var drykkfelld nokkuð og lenti af þeim sökum í basli eftir fráfall eiginmannsins. Líklega hefur henni þó ekki verið alls varnað því svo samdist með Bjarna og henni að hún yrði bústýra hans eða ráðskona.

Ástleitin ráðskona

Honum hefur sennilega gengið það eitt til að hlaupa undir bagga með þessari fyrrum húsmóður sinni en konan sá í sambúð þeirra prýðilegasta tækifæri til að komast á ný í örugga höfn hjónabandsins. Tvennt kom til er gerði það hálfundarlegt að maddaman færi að gera sér vonir um slíkt, annað það að hún var um fertugt en Bjarni tuttugu og átta ára. Hitt vóg þó þyngra að jafnættgöfugur maður og Bjarni Thorarensen gerði ákveðnar kröfur um ætterni væntanlegrar eiginkonu og uppfyllti maddama Klog ekki þau skilyrði. Henni hefur þótt að fyrrum kona danskættaðs kaupmanns sem að auki var bróðir þáverandi landlæknis mætti renna hýrum augum hærra en rétt og slétt vefaradóttir.

Auk þess er vitað af bréfum sem Bjarni skrifaði vinum sínum í Kaupmannahöfn að hann var fús til að sigla fleyi sínu í örugga höfn hjónabandsins og hafði leitað fyrir sér eftir kvonfangi en gengið bónleiður til búðar. Ekki er vitað hver sú stúlka var eða hvað kom til að hún hafnaði svo vænum biðli en maddama Klog hefur sennilega talið sig þess umkomna að sefa sorgir og sært stolt assesors Bjarna. Hann var þó á öndverðri skoðun. Hann taldi bústýru sína nálega gengna af göflunum og leið mikla önn fyrir ástleitni hennar.

Heimilisástæður assessorsins komust enn fremur jafnskjótt í hámæli og voru hafðar í flimtingum manna á milli. Gilti einu hvort um var að ræða sauðsvartan almúgann eða yfirstéttina sem Bjarni sjálfur tilheyrði hvorum tveggju var umræðuefnið jafngómsætt í munni. Að lokum sá Bjarni sér ekki annað fært en að reka maddömuna frá sér og flæktist hún þá manna á milli í bænum og hefur sennilega verið mörgum aufúsugestur er fýsti að frétta frá fyrstu hendi samskipti þeirra Bjarna. Hann tók allt þetta mál mjög nærri sér og þótti Reykjavík að eigin sögn hvimleiður bær. Sú mæða sem hann varð fyrir þar hefur líklega átt sinn þátt í því að hann varð fráhverfur bæjarlífinu og flutti sig upp að Gufunesi.

Krókóttar leiðir upp altarinu

Þegar ráðskonumálið hvímleiða var frá hefði mátt ætla að þessum unga menntamanni væru allir vegir færir að biðja sér konu sem honum sómdi en nokkrar ástarraunir biðu Bjarna áður en hann að lokum kvæntist. Því olli aðallega erkifjandi hans Magnús Stephensen en þrisvar tókst honum að spilla svo um fyrir kvonbænum Bjarna að hann varð af stúlkunni. Fyrst bað assessorinn Guðrúnar Stefánsdóttur frá Möðruvöllum í Hörgárdal en hún sagði honum upp eftir að hafa setið tvö ár í festum. Þá sneri hann augliti sínu að Odda á Rangárvöllum. Treysti Bjarni þar á að Ólafur Finsen bróðir stúlkunnar sem hann ætlaði sér hefði hug á að kvænast systur sinni. Ólafur reyndist hins vegar ástfanginn af annarri og varð þá ekki af frekari ástleitni af hálfu Bjarna í þeim ranni.

Næst leitaði hann fyrir sér hjá Stefáni amtmanni á Hvítárvöllum bróður Magnúsar Stephensen og var dóttir Stefáns föstnuð Bjarna. Magnús tók fljótlega að beita áhrifum sínum og skemmst frá því að segja að hann náði að telja bróður sínum hughvarf og bróðurdóttur sína á að bregðast orðum sínum.

Bjarni reið að lokum á laun vestur í Stykkishólm og bað Hildar Bogadóttur sem hann kvæntist fjórum dögum síðar. Í þá daga þóttu langar trúlofanir tilhlýðilegar svo þetta var nokkuð óvenjulegt. Líklega hefur hann ekki ætlað að eiga á hættu að nokkur næði að spilla þessu sambandi. Bjarni kom sem sagt að sunnan vopnaður giftingarleyfi til að allt mætti nú ganga sem greiðlegast og áður en Viðeyjarjarl hefði spurnir af ferðum hans. Hjónaband hans og Hildar varð þrátt fyrir flumbruháttinn farsælt og Bjarni hrósaði fljótt happi og taldi sig hafa hreppt góða konu. Minna mátti gæfan nú varla gera eftir að þær raunir sem hann hafði áður ratað í í kvennamálum.