mánudagur, júní 27, 2005

Af spilltum dómnefndum

Á föstudaginn fórum við í vinnunni í óvissuferð sem í bland var keppni milli liða. Ég dróst í liðið Dýralíf (hvað annað) og keppti auðvitað af fullri hörku. Við byrjuðum á því að semja myndatexta inn á Séð og Heyrt. Ég má til með að segja ykkur frá snilldarlegri lausn minni við mynd af pari í tangósveiflu. Þau horfast innilega í augu og konan segir: „Skórnir mínir eru að drepa mig.“ Og hann svarar: „Frankly my dear. I don't give a damn.“ Eftir þetta tók við lífsreynslusaga a la Vikan og ég, Bjarni Brynjólfsson og Nanna Rögnvaldar suðum saman óborganlega sögu um konu sem uppgötvaði að amma hennar hélt við eiginmann hennar. Þetta uppgötvaði konugreyið ekki fyrr en amman eignaðist tvíbura. Eiginkonan svikna þekkti nefnilega söðulbakað Skútustaðanefið á tvíburunum um leið og hún sá það. Sæunni frænku hafði dreymt gráar kýr og reynt að vara konuna við því eins og allir vita eru gráar kýr í draumi fyrir framhjáhaldi. Ýmislegt fleira gott kom fram í þessari lífsreynslusögu og að sjálfsögðu vann hún í sínum flokki. Við sigruðum líka eldunarkeppnina, enda ekki hægt annað með Nönnu Rögnvaldar innanborðs. Bjarni og Maggi yngsti liðsmaðurinn okkar sigruðu keilukeppnina en samt vann liðið okkar ekki. Heildarstigafjöldinn var ekki nægur en keppt var einnig í að leggja á borð, flottustu forsíðufyrirsætu og að þekkja efni úr Mannlífi. Ég er ekki í nokkrum vafa um að spillt dómnefndin hafði af okkur sigurinn. Einn úr dómnefndinni játaði meira að segja fyrir mér í morgun að hafa vaknað upp með frímiða á einn bjór af veitingastaðnum Ölveri daginn eftir keppnina. Þarf nokkur frekari vitna við.

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Já spillingin teygir sína saurugu anga hvert sem er. Verst er þegar fólk kann ekki að skammast sín, heldur játað að hafa þegið mútur.

2:00 e.h.  
Blogger Svava said...

Tja, þið hafið líklega klikkað á aðalreglunni, sem er að sofa hjá einhverjum úr dómnefndinni. Algeng aðferð í fegurðarsamkeppnum og sjóleiðis. Ættuð kannski að kanna hvað vinningsliðið var að bardúsa þetta kvöld...

4:17 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Svava kom með skýringuna! Ég hefði með mikilli ánægju sofið hjá einhverjum í dómnefndinni fyrir ykkur. Langvarandi einsemd hefur dregið helling úr kröfum mínum en ég set þó mörkin við að sofa hjá kvenfólki! En er til í að sofa hjá flestu karlkyns nú orðið nema kannski Tomma, kettinum mínum, og kvæntum körlum. Hverjir voru svo í þessari heimsku, smekklausu og mútuþægu dómnefnd? Hverjum missti ég af til að sofa hjá?

9:42 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home