þriðjudagur, júní 21, 2005

Hvað skal gera við símasölumann?

Í gærkvöldi hringdi í mig kona frá Símanum. Sú átti það erindi að bjóða mér nýja ADSL-tengingu sem fylgdi aðgangur að sjónvarpsrásum og guð veit hverju mér að kostnaðarlausu. Ef satt skal segja varð ég ekki uppnumin. Ég þoli nefnilega ekki þegar sölufólk hringir í mig á kvöldin. Í hvert skipti sem síminn hringir tryllist ég nefnilega af gleði og ríf upp tólið með miklum hjartslætti. Ég á vini, ég á fjölskyldu, somebody cares, syngur hjarta mitt en síðan sekkur maður niður í versta þunglyndi þegar nefmælt fúllyndisleg rödd fer með utanað lærða rullu um einhverja vöru eða þjónustu. Þegar konuræfillinn hóf lesturinn varð ég þess vegna að bíta mig í vörina til að æpa ekki: „Nei, ég veit að þú ert á mála hjá KGB skepnan þín! Þið ætlið að hlera hjá mér símann, njósna um sjónvarpsáhorf mitt og rukka mig fyrir greiðann. Nasistar!“ Aðeins tilhugsunin um minn tækjaóða eiginmann sem hefði aldrei fyrirgefið mér fyrir að hafa af sér nýjasta tækið á markaðnum hélt aftur af mér. Ég sit því upp með að fá heimsókn frá símamönnum sem ætla að tengja mig við njósnanetið. Be still my beating heart. Allt í nafni ástarinnar.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Rosalega hefði verið gaman ef þú hefðir skellt þessu á símaröddina með KGB, CIA, hlerun og annað njósn. Mikið held ég að sölumanneskjan hefði orðið hrædd ... múahahahahaha ... aldrei of illa farið með góða sölumenn!

10:07 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home