Það er þá ekki komið lengra jafnréttið
Í gær héldu íslenskar konur upp á 90 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Þúsundir kvenna skunduðu austur á Þingvelli þar sem níu kvennasamtök stóðu fyrir dagskrá. Kristín Ástgeirsdóttir flutti fróðlegt og skemmtilegt ávarp og rakti m.a. í stuttu máli sögu kvennabaráttunnar. Ung stúlka, Katrín Tómasdóttir, flutti sannkallaða barátturæðu þar sem hún benti á ýmislegt sláandi, t.d. það að landlæknir hefur fundið sig knúinn til að kalla foreldra til liðs við sig í baráttunni gegn klámmyndakynhegðun ungs fólks sem farin er að skaða heilsu ungra kvenna. Hún benti einnig á að konur eiga enn á hættu að vera fyrir kynferðisofbeldi og sú óvirðing er þeim sýnd að þær eru enn rétt rúmlega hálfdrættingar karla þegar kemur að launakjörum. Vigdís Finnbogadóttir ávarpaði líka samkomum og margt fleira var til skemmtunar. Þetta var hátíð kvenna og konur sáu um allt sem að henni sneri. Samt sem áður fannst Ríkissjónvarpinu og Stöð 2 það eina fréttin sem vert var að tíunda af þessum atburði að Árni Magnússon félagsmálaráðherra flutti erindi og lofaði að beita sér fyrir því að minnka launamun karla og kvenna. Orð eina karlmannsins í hópnum voru það eina sem vert var að nefna eða segja frá. Árni er ekki fyrsti ráðherrann sem lofar að beita sér gegn kynbundnum launamun og með fullri virðingu fyrir vilja og getu Árna til góðra verka verður hann áreiðanlega ekki sá síðasti. Í orðum hans fólst því að mínu mati engin frétt. Mun áhugaverðara var hversu glæsilega þessi níu kvennasamtök unnu saman og það sem þær skeleggu konur sem þarna töluðu höfðu að segja um það sem hefði áunnist og það sem betur mátti fara. Mamma er orðin rúmlega sjötug og eftir að hafa horft á fréttirnar í gærkvöldi hafði hún þetta að segja: „Það er þá ekki komið lengra jafnréttið.“ Þessi orð segja eiginlega allt sem segja þarf.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home