sunnudagur, júní 12, 2005

Freyja er fyrirtakshundur

Á föstudagskvöldið gengum við Freyja á Vífilfell. Klukkan korter fyrir tíu stóð ég á tindinum og þar með er annað fjallið sem ég ætla að ganga á í sumar sigrað. Ég verð að vísu að viðurkenna að sennilega hefði ég ekki farið alla leið upp ef ekki hefði verið það mikil þoka að við varla sáum nema tvo metra frá okkur. Leiðin liggur nefnilega um kletta og skriður og sums staðar eftir einstigi utan í snarbrattri brekku. Lofthræðslan hefði sennilega sigrað ef veðurguðirnir hefðu ekki hjálpað til. Freyja sýndi aftur á móti ótrúlega útsjónarsemi og dugnað. Hún þaut um allt og var yfirleitt fremst í flokki. Af og til kom hún þó til baka eins og til að fullvissa sig um að hópurinn væri nú allur þarna og enginn hefði helst úr lestinni. Hún er hreint fyrirtak þessi litli smalahundur minn. Í dag gengum við svo fyrir Kársnesið og hún fékk að vera laus. Auðvitað brá hún sér út í lúpínubreiðurnar og lengi vel sást ekki annað af henni en gult iðandi skott upp úr blámanum. Þegar gróðurinn varð of þykkur til að ganga hoppaði hún áfram eins og lítil kengúra og það var hreint óborganlega fyndið. Jamm, Freyja er fyrirtakshundur.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Freyja er sannkallaður gæðahundur, sammála þér. Mikill karakter og algjört gæðablóð. En hún á líka góða "mömmu" og góðan "pabba".
Kem til vinnu á miðvikudag. Viltu láta Möggu símaséní vita?
Sakn, sakn.

2:27 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home