Heimspeki á unga aldri
Hér sit ég og hangi eins og sígarettubuxnavasahengilmæna fyrir framan tölvuna og reyni að finna mér eitthvað til að gera. Ég hef lokið þeim verkefnum sem ég hafði á minni könnu þessa viku og bíð eftir að klukkan verði þrjú. Til að eyða tímanum er ég búin að leika mér endalaust í kapli á Netinu, taka persónuleikapróf sem sagði mér að ég væri einstök og lesa alls konar rugl og þvætting á cosmopolitan.com. Þetta horfir til vandræða. Tíminn líður svo hryllilega hægt. Einhvern tíma þegar ég var barn var ég stödd úti á strætóstoppistöð með Obbu, þáverandi bestu vinkonu minni. Einhver gömul kona beið þarna líka og eftir stutta stund sagði hún við okkur: „Mikið er nú klukkutíminn lengi að líða þegar maður bíður eftir honum.“ Obbu fannst þetta óstjórnlega fyndið en ég skildi alveg hvað gamla konan átti við. Auðvitað er tíminn einga stund að líða þegar manni er sama hvert hann fer. Þessi kerling var hinn mesti viskubrunnur því stuttu síðar benti hún mér á krónu á götunni. Ég beygði mig niður og tók hana upp en Obbu fannst það versta firra og gargaði: „Ekki gera það! Ekki taka þetta upp!“ Þá sagði sú gamla: „Sá sem aldrei hirðir smátt á alltaf fátt.“ Já, maður hefur sko hitt heimspekinga um ævina.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home