Komin í bland við tröllin
Við Gummi fórum í mikla ævintýraferð í gær. Rétt um sexleytið ákváðum við að leita uppi Lambafellsgjá. Ævintýralegan stað sem ég hafði lesið um í nýrri útvistarbók eftir Pál Ásgeir Ásgeirsson. Okkur tókst eftir nokkra villu að ramba á réttan stað og fyrirhöfnin var vel þess virði. Gjáin er djúp og þröng og maður hreinlega gengur inn í fjallið. Fljótlega liggur leiðin upp á við og síðasti spölurinn er allbrött brekka þar sem skiptast á hál mold og lausamöl. Við slíkar aðstæður er gott að gjáin er þröng því göngumenn geta teygt út handleggina og stutt sig við gjáveggina beggja vegna. Gangan er ekkert erfið þótt brattinn geri það að verkum að maður mæðist ögn. Þegar upp er komið blasir við stórkostlegt útsýni og aðeins örfá skref eru upp á topp Lambafells. Ég verð að játa að þrátt fyrir að vera af alkunnu tröllakyni varð mér ofurlítið um og ó fyrst þegar ég gekk inn í gjána. Þetta er ekki heppilegur staður fyrir fólk með innilokunarkennd en frábær skemmtun engu að síður. Ég mæli hiklaust með því að fólk kynni sér á þennan hátt lífshætti íslenskra trölla.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home