föstudagur, maí 13, 2005

Morgunhanar og annað fiðurfé

Hann Andri minn hefur alltaf verið morgunsvæfur. Ég er það reyndar líka en hans morgunógleði var svo mögnuð að þegar ég var að vekja hann í gamla daga leið mér eins og ég væri að reyna að særa draug upp úr gröf. Það var alveg sama hvernig var kallað, bölvað og gargað, hann haggaðist ekki í rúminu. Stundum brá ég á það ráð að halda ljósasjóv í herberginu hans. Kveikti sterk ljós og dansaði stríðsdans á gólfinu vegna þess að nú væru síðustu forvöð að drattast fram úr og koma sér í skólann. Drengurinn rumskaði ekki einu sinni og ef lætin voru orðin óheyrileg sneri hann sér í mesta lagi á hina hliðina. Mér fannst af þessum ástæðum við hæfi að senda honum vísu svona í morgunsárið.

Þú ert minn morgunhani
og alltaf á miklu spani,
frá klukkan sjö
og framundir tvö
er þú sofnar úti á plani.

Það er ekki tekið fram hvort um er að ræða sjö p.m. eða a.m.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home