þriðjudagur, maí 10, 2005

Freyjugleði

Gummi kom heim á föstudaginn og það var dásamlegt að fylgjast með viðbrögðum Freyju þegar hann kom. Hún bókstaflega trylltist. Hann stóð í heimkeyrslunni og ég opnaði hliðið. Fyrst gekk hún varlega í átt til hans, líkt og hún væri ekki alveg viss um að hún þekkti hann. Gummi kallaði þá á hana og þá missti hún gersamlega stjórn á sér, ýlfraði og vældi, fleygði sér í jörðina við fætur hans. Síðan hjóp hún fram og aftur eftir heimkeyrslunni og það var eins og hún vissi ekki hvar hún ætti að vera. Eftir smástund róaðist hún og gat heilsað honum almennilega. Ræfillinn litli sleikti hann og kyssti svoleiðis í bak og fyrir og ætlaði aldrei að hætta. Mín elskulega fjölskylda er auðvitað búin að finna skýringu á því hvers vegna tíkin gladdist svona yfir heimkomu Guðmundur, nefnilega þá að hún hafi verið svona ofboðslega fegin að þurfa ekki að vera ein með mér lengur. Sá sem á mitt fólk að þarfnast ekki óvina.

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Rétt, maður þarf ekki fjandmenn þegar maður á svona ættmenni!

1:57 e.h.  
Blogger Svava said...

Við ættmennin höfum nefnilega tekið eftir fölskvalausri gleði hundsins þegar aðrir koma í heimsókn. Skýringin hlýtur að vera sú að húsmóðirin sé afar óspennandi :-)

3:29 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home