Hugmyndaríkir feður
Í gær gekk ég með Freyju umhverfis Kársnesið. Þegar við komum út í Kópavogshöfn varð ég alveg undrandi á því hversu mikil umferð var. Hver bíllinn rak annan og allir þurftu þeir að keyra fram og aftur um iðnaðarsvæðið þannig að ég gat ekki haft tíkina lausa. Ekkert af fyrirtækjunum á svæðinu var opið og var ég þess vegna steinhissa á þessu renniríi eða allt þar til ég fór að rýna inn í bílana. Undantekningarlaust var einn karlmaður í bílnum og eitt til þrjú lítil börn í aftursætinu. Þá rann upp fyrir mér ljós. Þessir elskulegu feður voru að gleðja litlu börnin sín með því að keyra með þau niður á höfn. Ég þarf sennilega ekki að segja lesendum þessarar síðu að á andlitum allra barnanna var örvæntingarfullur þjáningarsvipur en feðurnir gláptu áhugasamir ofan í trillurnar og upp í glugga bólstrunar- og bílaverkstæða.
7 Comments:
Þessi færsla rifjaði upp fyrir mér hringferð kringum landið í aftursæti Lada Sort fyrir um 25 árum, mér varð það á að æla í byrjun ferðar og sat í lyktinni hringinn á enda. Mig langar enn til að drepa bændur og kveikja í byggðasöfnum eftir að hafa setið í ælupolli og verið neyddur inná byggðasöfn og til að sitja undir pistlum bænda. Reyndar er ein lína úr þessari ferð sem ég mun aldrei gleyma, það var bóndadurgur fyrir austan sem lét útúr sér þennan gullmola "Ég leigi túnið af honum Óskari heitnum"
Aumingja bitringur og aumingja börnin. En prófið að fara á MacDonald´s um helgar ...
Gurrr
Mér eru nú í fersku minni ótal bíltúrar sem pabbi fór með okkur í niður að Reykjavíkurhöfn. Ég man líka eftir þeirri skelfingu sem greip mig þegar hann keyrði alveg upp að bryggjukantinum. Enda dreymdi mig ansi oft að ég væri í bíl sem væri að keyra fram af bryggu. Veit ekki alveg hvað þetta er með karlmenn og hafnarrúnta, hef heyrt að þetta einskorðist ekki einu sinni við gamla sjóara.
Ah ja, MacDonalds um helgar. Við vinkonurnar þekkjum þann stað vel, besti staðurinn til að pikka upp fráskilda feður. Helgarpabbar eru mjög fyrirsjáanlegir
Já ég man enn yndislegu rúntana niður á höfn. En það var ekki fyrr en nýlega að sonur minn játaði að hafa fengið martraðir í æsku um það að hann væri með afa niðr'á höfn og að afi keyrði fram af hafnarbakkanum. Þetta voru akkúrat mínar martraðir, hér sameinast tvær kynslóðir í sömu angistinni...
Já, hafnarrúntarnir góðu. Ég fékk reyndar engar martraðir, en mikið var ég nú alltaf hrædd. Líka þegar ekið var á trébryggjunni, sem sá í hyldýpið fyrir neðan á milli plankanna. Pabbi labbaði líka oft um þá bryggju með manni og maður var að deyja úr hræðslu. Það var svo mörgum árum síðar, þegar ég var að "deita" Sigga sjóara á sínum tíma, að hann fór með mig rómantískan bíltúr niður á höfn. Verð að játa, að það gerði sennilega útslagið með að ég vildi ekki vera með honum ævina á enda. Samt var það svo einkennilegt, að kvöldið sem pabbi dó og við fórum af spítalanum, vildi ég fara einn hafnarrúnt og fórum við Ragnar með krakkana að rúnta um svæðið. Svanhildur
Ég var í skóla með stelpu sem var að rúnta á bryggjunni eitt árið og í hálku rann bíllinn út í sjó. Hún bjargaðist en ekki vinkonan og ekki kærastinn. Bara hún og kærasti vinkonunnar. Hef forðast allar bryggjur síðan. Skil mætavel allar svona martraðir. Þegar sonur minn var á fyrsta árinu og ég sat inni saklaus í hjónabandi á Skaganum dreymdi mig sífellda drauma, í vöku þó, að ég missti barnið í burðarrúmi milli Akraborgar og bryggju. Held að það sé eitthvað til í því að konur verið hálfgeðveikar fyrst eftir barnsburð. Lét mér eitt barn nægja og hélt geðheilsunni.
Skrifa ummæli
<< Home