Úr kotungi í konung
DV flytur okkur fréttir af því að þeir sem eru óánægðir með nafnið sitt eða vilja bæta við sig svona eins og einu stykki í viðbót geta nú keypt af Ríkinu millinafn fyrir 4.400. Ég hef alltaf verið svolítið óánægð með nafnið mitt og þegar ég var krakki hélt ég því blákalt fram að Steingerður þýddi klósett á kínversku. Systur mínar eru mjög ánægðar með að kunna þetta eina orð í kínversku og hafa oft nefnt hversu hagnýtt það sé að kunna skil á einmitt þessu orði þurfi maður að ferðast um Kína. Ég ætla ekki að tjá mig um það en var að hugsa um að bæta við mig eins og einu til tveimur nöfnum. Í þessu sambandi er vert að benda á að konungborið fólk heitir alltaf a.m.k. þremur nöfnum þannig að maður getur breyst úr kotungi í konung í einu vetfangi með hjálp þessa nýja og ódýra úrræðis. Þegar ég var barn vildi ég heita Rósalind, Sóley eða Ástrós. Núna líst mér betur á gömul ensk drottningarnöfn eins og Godíva, Guinevievre eða Eleanore. Þessi nöfn yrðu sennilega ekki samþykkt svo ég ætla að láta mér nægja að heita Steingerður Margrét Þórhildur Ingileif Kóngódía Steinarsdóttir. Herlegheitin kosta ekki nema 17.600 kr. Svo ætla ég að velja handa öllum systrum mínum millinafn og gefa þeim í afmælisgjöf. Mér finnst til dæmis að Svövu Svanborgu hæfði ágætlega að heita Appólónía, Helen Sjöfn Geirþrúður er líka hljómfagurt og Margrét Marsibil einstaklega stuðlað og fínt og að lokum er hrein snilld að heita Svanhildur Evangelína.
3 Comments:
Þetta líst mér vel á! Hin auma Hilda á Hóli breyttist í aðalsmeyju og nafn hennar var ekki svona almúgalegt, hún hét í rauninni Gunnhildur Benedikta Friðrika.
Mig langaði að heita Elísa þegar ég var lítil og lítillát, núna vildi ég frekar heita Elísabet en það! Svona þroskast maður nú með aldrinum. Annars finnst mér Steingerður vera svakalega virðulegt og flott nafn :)
Gurrrr
Mér líst betur á Steingerður Lofthæna Efemía Incontentia Bucket.
Margrét Marsibil er einstaklega vel til fundið og hæfir prýðilega þeim virðulega miðaldra einstaklingi sem ætlað er að bera þau nöfn.
Skrifa ummæli
<< Home