þriðjudagur, maí 24, 2005

Talað við sjálfan sig

Ég er alveg skæð með það að tala við sjálfa mig í tíma og ótíma. Ég á ákaflega auðvelt með að halda uppi samræðum við sjálfa mig og stundum segi ég eitthvað upphátt gersamlega óvart. Þetta getur verið óskaplega vandræðalegt og hefur iðulega komið mér í koll. Í morgun t.d. var ég stödd niður í Kópavogsdal og var búin að halda uppi hörkusamræðum við sjálfa mig um heimspeki á göngunni. Á leið fram hjá fótboltavellinum fullyrti ég fullum rómi: „Þetta er hin versta hugsanavilla og alger rökleysa.“ Einhver mannvesalingur sem átti leið þarna um rak upp stór augu og horfði hvasst á mig. Ég reyndi eftir bestu getu að klóra í bakkann og hvæsti á hundvesalinginn sem skondraðist í kringum mig: „Já, þetta gengur alls ekki upp hjá þér, Freyja mín.“ Maðurinn hljóp við fót eins langt í burtu frá mér og hann komst.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Heldurðu að það hækki ekki bara greindarvísitölu hundsins að tala svona við hann? Efast um að barnakrúsídúllumál virki betur! Maðurinn hefði samt eflaust ekki orðið jafnhræddur við þig.

8:01 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home