föstudagur, júní 03, 2005

Ég er vanræktur vesalingur

Nýlega gerði Kiddi tölvumaðurinn okkar eitthvert trix við serverinn þannig að minni sía er á skilaboðum sem berast í tölvupósti. (Þeir sem ekki skilja þessa setningu eru ekki heimskir. Ég skil hana ekki heldur.) Hvað sem öðru líður varð þetta til þess að á hverjum morgni bíða mín á milli tuttugu og þrjátíu skilaboð í tölvunni. Fyrst eftir að breytingin var gerð gladdi þetta mig ósegjanlega og ég fylltist hundakæti í hvert sinn sem ég sá allan póstinn. Gvööð hvað ég er vinsæl. Flaug gegnum huga minn og ég blóðhlakkaði til að opna öll þessi bréf frá vinum og ættingjum. Vonbrigðin urðu alltaf jafnmikil þegar mér varð ljóst að þetta voru bara þessi venjulegu tilboð um róandi töflur, viagra og typpastækkunartæki. Ég er auðvitað löngu búin að kaupa þvílíkan lager af slíkum varninga að það væri að bera í bakkafullan lækinn að bæta við. Ég vildi hins vegar að mínir nánustu stæðu sig betur í að senda mér bréf. Það er helst Gurrí mín sem lætur vita af sér af og til og gleður mitt gráa hjarta.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Hver þarf systur eða fjölskyldu svona almennt þegar maður á eina gurrí? Hehehhehe. Farin í sveitina. Les þig samt þar ef Netið kemst fljótt í notkun. Og svara hástöfum.

1:58 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home