fimmtudagur, júní 02, 2005

Ætternið leynir sér ekki

Af einhverjum ástæðum, sem mér eru huldar, er ætt mín sérlega vinsæl vettvangur ýmissa læknisfræðilegra rannsókna. Einhvern tíma í árdaga vísinda á Íslandi gaf föðurafi minn vísindamönnum kost á að skoða hjartalag sitt. Ekki þarf að taka það fram að hjartað í honum reyndist svo vel af guði gert að afkomendur hans í þriðja lið eru farnir að fá bréf um að bráðum komi að því kortleggja verði hjarta þeirra. Pabbi og mamma reyndust bæði, þegar að var gáð, komin af gigtargemlingum að langfeðratali og liðir okkar systra hafa því verið vendilega skoðaðir í bak og fyrir. Það var nú svo sem gott og blessað því allar fengum við bómullarboli fyrir viðvikið og erum því merktar Kára Stefánssyni í hvert skipti sem við bregðum okkur í leikfimi. Þegar pabbi lærbrotnaði um árið kom í ljós að hann þjáðist af beinþynningu og núna er verið að falast eftir okkur beinasleggjunum í rannsóknir vegna þessa. Ég var hin fúlasta og afþakkaði, enda engin bolur eða annað merkt Kára í boði. Svava féll auðvitað fyrir ókeypis beinþéttnimælingu og ég er ekki frá því að meðfædd græðgi hinna hafi leitt þær á vit beinalæknanna. (Ég verð eiginlega að játa að þetta með ókeypis beinþéttnimælinguna fór fram hjá mér við fyrsta yfirlestur bréfsins en verð að halda mig við að það hefði engu breytt um neitunina.) Kjarninn í því sem ég sagt vildi hafa í þessu sambandi er hins vegar sá að ég er að verða skideþreytt á öllum þessum rannsóknum. Öll mín nánasta fjölskylda hefur verið svo grandskoðuð að varla er nokkuð sem vísindasamfélagið veit ekki um okkur ef undan er skilin breytileg nærbuxnastærð. Gummi er búinn að svara rannsókn um kvíða, meltingarfærasjúkdóma, starfstengda streitu og ótalmargt fleira. Ég er auk ofantalinna rannsókna búin að svara spurningalistum um þunglyndi, höfuðverki, ástand stoðkerfis og eitthvað sem ég man ekki í svipinn nákvæmlega um hvað fjallaði en eitthvað tengdist það þó hreyfingu. Börnin mín hafa fengið sent ómælt magn af pappír í tengslum við hinar og þessar rannsóknir og á tímabili var eitt símtal á kvöldi þar sem einhver fjölskyldumeðlimur var beðin að gera grein fyrir lífsstíl sínum fyrir ÍM-Gallup. Já, það verður erfitt fyrir afkomendur mínar að sverja af sér svo vandlega kortlagt ætterni nema kannski helst með því að ganga fyrir ætternisstapa. He he.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Losnar þú alveg við sölumenn á kvöldin? Held að ég vildi heldur ræða heilsufarstilvonandikannskimál en að ljúga upp blankheitasögum eða að ég sé dauðvona sem virkar þó ansi vel.
Kaffi á leið til þín í dag með Sigga sæta. Fyrst láta ljósmynda, svo drekka :)

2:13 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home