þriðjudagur, maí 31, 2005

Vilja menn fá meira að heyra

Heyrnin í mér er undarlega sjálfhverf. Í hvert skipti sem ég heyri einhvers staðar kallað er ég alveg viss um að verið sé að kalla í mig og ég sperri eyrun og legg mig eftir að heyra hvað verið er að kalla. Þetta gerist jafnvel þótt ég heyri skýra og greinilega kvenmannsrödd kalla: „Jörmundrekur! Komdu upp úr kjallaranum!“ Það sem er furðulegt við þessa tilhneigingu mína til að hlusta á svona köll er að það er enginn kjallara undir húsinu mínu. Einnig er mjög algengt að ef einhver kallar mamma þá taki ég það til mín. Af þessum ástæðum hef ég í hugsunarleysi svifið að litlum sakleysingjum í stórmörkuðum til þess eins að sjá skelfinguna birtast í bláum augunum. Hingað til hef ég getað stillt mig um að safna þeim öllum heim með mér en kallinu mamma svara ég alltaf jafnvel þótt hvorugt barnanna minna sé með í för og röddin sem kallar hafi auðheyranlega ekki náð fimm ára aldri og börnin mín hafi fyrir þó nokkru síðan skriðið yfir þau aldursmörk.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home